152. löggjafarþing — 8. fundur,  9. des. 2021.

rannsóknir á nýgengi krabbameina á Suðurnesjum.

138. mál
[17:02]
Horfa

Flm. (Birgir Þórarinsson) (S):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um rannsóknir á nýgengi krabbameina á Suðurnesjum. Flutningsmenn eru ásamt þeim sem hér stendur Ásmundur Friðriksson, Guðrún Hafsteinsdóttir, Vilhjálmur Árnason, Oddný G. Harðardóttir, Guðbrandur Einarsson og Jóhann Friðrik Friðriksson.

Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að gera samning við Rannsókna- og skráningarsetur Krabbameinsfélags Íslands um rannsókn á nýgengi krabbameina á Suðurnesjum í samanburði við nýgengi krabbameina annars staðar á landinu. Einnig verði könnuð tíðni þekktra áhættuþátta krabbameina eftir búsetu og loks yfirfarnar skýrslur sem Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. hefur látið gera varðandi mengun á svæðinu. Tekin verði saman heildstæð skýrsla sem lýsi þeim gerðum krabbameina sem algengari eru á Suðurnesjum ásamt því að meta algengi áhættuþátta sem tengjast þeim meinum. Þá verði styrkur mengandi efna í grunnvatni og jarðvegi borinn saman við lista yfir alþjóðlega viðurkennda krabbameinsvalda. Ráðherra skili Alþingi skýrslu með niðurstöðum fyrir 1. júní 2022.“

Frú forseti. Ef ég vík þá næst að greinargerð með tillögunni þá segir þar að þessi þingsályktunartillaga hafi verið lögð fram á 151. löggjafarþingi, á síðasta löggjafarþingi, og sé nú lögð fram að nýju. Með henni er heilbrigðisráðherra falið að gera samning við Rannsókna- og skráningarsetur Krabbameinsfélags Íslands um rannsókn á nýgengi krabbameina á Suðurnesjum í samanburði við nýgengi annars staðar á landinu.

Samkvæmt nýlegri könnun á búsetu og krabbameinum hjá Rannsókna- og skráningarsetri Krabbameinsfélags Íslands höfðu Suðurnesin hæst nýgengi krabbameina af öllum stöðum á landinu á árunum 2009–2018. Í tillögunni fylgir tafla þar sem kemur fram árlegt aldursstaðlað nýgengi krabbameina á 100.000 íbúa á árunum 2009–2018. Þar kemur fram að Suðurnesin hafa þar hæst nýgengi hjá körlum eða 595 á móti 539 á höfuðborgarsvæðinu. Á Austurlandi er það lægst eða 427. Það sama á við um nýgengi hjá konum. Það er á Suðurnesjum 483 á hverja 100.000 íbúa en á höfuðborgarsvæðinu 478 og síðan er nýgengið lægst á Vestfjörðum og á Austurlandi. Þannig að bæði hjá konum og körlum er nýgengið hæst á Suðurnesjum.

Almennt hafa höfuðborgir og aðrar stærri borgir gjarnan hæst nýgengi þegar krabbamein eru borin saman eftir búsetu. En á Íslandi eru Suðurnesin nú komin upp fyrir höfuðborgarsvæðið hjá körlum og eru á svipuðu róli og höfuðborgarsvæðið hjá konum, þó aðeins hærra á Suðurnesjum. Þetta er að sjálfsögðu áhyggjuefni og mjög mikilvægt að farið verði ofan í saumana á þessu.

Samtals greindust rúmlega 1.000 krabbameinstilvik á Suðurnesjum yfir þetta 10 ára tímabil. Dreifing krabbameinanna var svipuð og á landsvísu, þ.e. hæst nýgengi krabbameina var í brjóstum kvenna og blöðruhálskirtli karla, þar á eftir í lungum og ristli hjá báðum kynjum. Þá var áberandi hátt nýgengi krabbameina í lungum og leghálsi en ekki liggja fyrir rannsóknir á fleiri tegundum krabbameina. Samkvæmt upplýsingum frá Krabbameinsfélaginu er einnig áhugi á að kanna betur hugsanlega orsakaþætti, bæði efnafræðilega og lífsstílstengda þætti. Samkvæmt lýðheilsuvísum landlæknisembættisins er tíðni reykinga í Reykjanesbæ t.d. há miðað við aðra staði, en 85% lungnakrabbameina orsakast af reykingum. Þá kemur einnig fram að mæting í leit að leghálskrabbameini hefur verið slakari þar en annars staðar. Hugsanlega gæti þetta spilað eitthvað inn í þessar tölur en er eitt af því sem þarf að fara yfir. Krabbameinsfélagið telur hins vegar að ekki sé hægt að útiloka að aðrar orsakir skýri einhvern hluta af hækkuðu nýgengi og telur því rétt að fara yfir skýrslur sem Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. hefur látið gera varðandi mengun á svæðinu. Í kjölfarið þyrfti að gera heildstæða skýrslu sem lýsir nýgenginu og þeim gerðum krabbameina sem algengari eru á Suðurnesjum ásamt því að meta algengi áhættuþátta sem tengjast þeim meinum, og sem athugar loks styrk mengandi efna í grunnvatni og jarðvegi og ber saman við lista Alþjóðastofnunar um krabbameinsrannsóknir yfir krabbameinsvaldandi efni.

Frú forseti. Ég tel nauðsynlegt, og flutningsmenn, að leggja þingsályktunartillöguna fram þannig að málið verði rannsakað ítarlega. Ef marktækur munur er á tíðni krabbameins á Suðurnesjum annars vegar og á höfuðborgarsvæðinu hins vegar er mikilvægt að fá fram um hvaða mein sé að ræða og hugsanlega orsakaþætti.

Eins og ég sagði í upphafi ættu Suðurnesin undir eðlilegum kringumstæðum að hafa heldur lægri krabbameinstíðni en höfuðborgarsvæðið. Flutningsmenn leggja til að heilbrigðisráðherra láti rannsaka málið ítarlega og telja eðlilegast að gerður verði samningur við Rannsókna- og skráningarsetur Krabbameinsfélags Íslands, sem hefur unnið að rannsóknum málsins, um að kanna tíðni þekktra áhættuþátta krabbameina eftir búsetu og fara yfir skýrslur Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf. varðandi mengun á Suðurnesjasvæðinu og reyndar fleiri skýrslur sem ég mun nefna í lokin. Tekin verði saman heildstæð skýrsla sem lýsi þeim gerðum krabbameina sem algengari eru á einstökum landsvæðum ásamt því að meta algengi áhættuþátta sem tengjast þeim meinum og loks verði styrkur mengandi efna í grunnvatni og jarðvegi borinn saman við lista yfir alþjóðlega viðurkennda krabbameinsvalda. Lagt er til að heilbrigðisráðherra skili ítarlegri skýrslu með niðurstöðum fyrir 1. júní 2022. Þetta er megininntak þessarar þingsályktunartillögu.

Frú forseti. Ég ætla hér í lokin að koma aðeins inn á mengunarmál á gamla varnarsvæðinu sem koma fram í þeim skýrslum sem lagt er til í þessari tillögu að verði skoðaðar. Bandarískt fyrirtæki gerði heildstæða úttekt á umhverfismálum á varnarsvæðinu áður en varnarliðið hvarf af landi brott og sú skýrsla var birt 3. ágúst 2006 og hana er hægt að nálgast hjá utanríkisráðuneytinu. Um er að ræða umfangsmikla skýrslu og ég hvet þingmenn til að kynna sér hana. Það er margt athyglisvert sem þar kemur fram, m.a. er þar að finna gögn frá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja, og þar er einnig að finna upplýsingar um mengunarstaðina, þeir kortlagðir og tilgreindir og um hvaða mengun er að ræða. Mengunin er flokkuð í tvo flokka, þ.e. hættu og síðan bráðahættu. Það er hvergi um bráðahættu að ræða en ef svo hefði verið hefðu sérfræðingar verið sendir á staðinn til að fjarlæga hana. Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar sem tók yfir eignir og umsýslu á gamla varnarsvæðinu réð verkfræðistofu sem hafði síðan umsjón með því að verstu mengunarstaðirnir voru fjarlægðir og efni á borð við PCB voru send til Danmerkur. Mér skilst að verstu mengunarblettirnir hafi verið á umráðasvæði íslenskra aðila, þá einkum verktaka, þeir hafi ekki verið á ábyrgð varnarliðsins. En það er rétt að taka það skýrt fram, frú forseti, að vatnsbólin á Suðurnesjum eru í mjög góðum málum. Ráðist var í gerð nýrra vatnsbóla fyrir u.þ.b. 30 árum og vatnið á Suðurnesjum er mjög gott. Samkvæmt upplýsingum frá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja eru send sýni á hverju ári til Svíþjóðar til mjög ítarlegrar rannsóknar.

Eins og áður segir er vitað hvar þessi mengun er. Ef farið er í framkvæmdir á þeim stöðum þar sem vitað er að mengun er til staðar þá er jarðvegur fjarlægður og það var m.a. gert á svokölluðu nikkelsvæði sem er nú að hluta til byggingarsvæði. En það er líka rétt að geta þess hér, í framhaldi af þessari þingsályktunartillögu, varðandi þessi mengunarmál á gamla varnarsvæðinu, að vorið 2006 gerði Almenna verkfræðistofan utanríkisráðuneytinu tilboð um rannsóknir á allri mengun á svæðinu. Á þeim tíma var sagt að kostnaður við hreinsunina gæti numið nokkrum milljörðum króna. Ekkert varð úr samningum þannig að ekki var ráðist í þessa vinnu, því miður. En það er almennt viðurkennt að umgengni á gamla varnarsvæðinu hafi verið slæm á áratugunum eftir stríð og eiturefnum jafnvel hent án þess að menn gerðu sér grein fyrir afleiðingunum. Svo er það nú reyndar 2014 sem fréttir berast enn þá af mengandi efni frá gömlum urðunarstöðum á Miðnesheiði og að það séu svæði sem falli í áhættuflokk. Einkum er um tvö svæði að ræða. Það eru gömul urðunarsvæði á Stafnesi sunnan við Sandgerði og við Smiðjutröð á Ásbrú. Þar sýna efnamælingar að ýmsir þungmálmar og önnur mengandi efni frá þeim menga grunnvatn. Þessir staðir eru sérstaklega vaktaðir af Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja. En ég vil bara ítreka að vatnsbólin voru flutt á nýjan stað fyrir um 30 árum og drykkjarvatnið er mjög gott á þessu svæði.

Ég taldi rétt, frú forseti, að koma aðeins inn á mengunarmálin í tengslum við þessa tillögu vegna þess að gert er ráð fyrir því í henni að þetta verði skoðað, það verði farið yfir þessar skýrslur, þessi gögn liggja fyrir, og að styrkur þessara mengandi efna í jarðvegi verði borinn saman við lista Alþjóðastofnunar um krabbameinsrannsóknir yfir krabbameinsvaldandi efni. Ég held að þetta sé afar mikilvægt í þessari skýrslu sem lagt er til að verði gerð af hálfu Rannsókna- og skráningarseturs Krabbameinsfélags Íslands um rannsóknir á nýgengi krabbameina á Suðurnesjum í samanburði við nýgengi krabbameina annars staðar á landinu.

Að þessu sögðu, frú forseti, vísa ég málinu til hv. velferðarnefndar.