152. löggjafarþing — 8. fundur,  9. des. 2021.

rannsóknir á nýgengi krabbameina á Suðurnesjum.

138. mál
[17:17]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir flutningsræðu með þessari þingsályktunartillögu um rannsóknir á nýgengi krabbameina á Suðurnesjum og ætla hér með að lýsa yfir stuðningi mínum við málið. Ég tel gríðarlega jákvætt að hér sé lagt til að svona rannsókn fari fram og vil nú bara segja: Það er löngu kominn tími til að gera það. Við herstöðvaandstæðingar höfum áratugum saman haft áhyggjur af þeirri mengun sem bandaríski herinn á Miðnesheiði skildi eftir sig og þeim áhrifum sem mengunin hefur á lífríki svæðisins og á íbúana. Það var svo snemma sem árið 1973 sem Einar Valur Ingimundarson umhverfisverkfræðingur kortlagði stærstu svæðin þar sem þekkt var að orðið höfðu stór mengunarslys á Miðnesheiði og gerði helstu embættismönnum heilbrigðismála og varnarmáladeildar viðvart en ekkert virðist hafa verið gert með þær upplýsingar. Árið 1985 lét bandaríski herinn rannsaka vatnið frá vatnsbóli vallarsvæðisins en það var þá hluti af alþjóðlegri rannsókn sem var gerð á athafnasvæðum Bandaríkjahers í kjölfar herferðar gegn menguðu drykkjarvatni í Norður-Ameríku. Niðurstaðan leiddi til tafarlausrar lokunar vatnsbóla í Njarðvík og í Keflavík. Ný vatnsból voru sem betur fer tekin í notkun.

Í þessari þingsályktunartillögu er lagt til að skýrslur þær sem Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. hefur látið gera varðandi mengun á svæðinu verði yfirfarnar og eins vísaði hv. framsögumaður í skýrslu sem Bandaríkjaher lét gera á svæðinu og það er vel. Ég tel þó að það ætti að útvíkka svið rannsóknarinnar enn frekar og byggja á öllum þeim gögnum sem til eru. Áðurnefndur Einar Valur Ingimundarson umhverfisverkfræðingur og Árni Hjartarson jarðfræðingur hafa kortlagt þetta svæði og það má m.a. kynna sér verk þeirra í Dagfara, málgagni Samtaka herstöðvaandstæðinga, frá árinu 1992. Mér finnst eðlilegt að þegar farið er í svona mikilvæga rannsókn þá notum við öll þau gögn sem vitað er að hafi verið tekin saman um málið.

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna að ég varð pínulítið hissa þegar ég sá hvaða hv. þingmenn það eru sem eru flutningsmenn þessarar tillögu. Ég átti ekki endilega von á þessari tillögu úr þeim ranni en fagna því enn frekar og hygg að náðst geti breið pólitísk sátt um að láta þessa rannsókn fara fram. En þetta er ekki í fyrsta skipti sem þingsályktunartillaga er lögð fram á Alþingi þar sem komið er inn á mikilvægi þess að skoða mengun í grunnvatni og jarðvegi á svæðinu. Árið 1992 lagði þáverandi varamaður Alþýðubandalagsins, Sigríður Jóhannesdóttir, einmitt fram þingsályktunartillögu um rannsókn á jarðvegi og grunnvatni við hið svonefnda varnarsvæði á Suðurnesjum.

En það er gott að þessi tillaga er komin fram. Hér á vissulega að kanna fleiri þætti sem geta leitt til þess að nýgengi krabbameina á Suðurnesjum er hátt. Það er líka mikilvægt að skoða þá félagslegu þætti sem gætu leitt til hækkunar nýgengis á krabbameini. Ég tel hins vegar að í ljósi sögunnar, í ljósi þess sem löngum hefur verið vitað um þá mengun sem herinn skildi eftir sig á Miðnesheiði, sé mikilvægt að fara í rannsókn á styrk mengandi efna í bæði grunnvatni og jarðvegi. Og eins og ég sagði, ég tel að það eigi ekki bara að yfirfara skýrslur frá Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar ehf. heldur byggja á öllum þeim gögnum sem vitað er um.

Að því sögðu óska ég hv. velferðarnefnd velfarnaðar í að fjalla um þetta mál og vona að það komi hingað inn í þennan sal aftur, að við getum samþykkt þingsályktunartillöguna og að þessi rannsókn fari fram.