152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

um fundarstjórn.

[15:10]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég vil bara við þetta tækifæri benda hæstv. forseta á að það gæti nú lengst nokkuð umræðan um ákveðin mál í dag í ljósi þess að Mílumálið virðist vera í forgangi þrátt fyrir að það sé aftast á dagskrá dagsins. Núna virðist liggja fyrir að framlengja eigi bráðabirgðaheimildir, í frumvörpum hæstv. innanríkisráðherra, út árið 2023, ef ég skil rétt, a.m.k. að hluta til. Það er varla hægt að tala um það sem bráðabirgðabreytingu eða tímabundna breytingu. Þetta jaðrar, í samhengi hlutanna, við varanlega breytingu, þannig að ég held að slíkt muni kalla á miklu meiri umræðu en raunverulega tímabundnar aðlaganir á því regluverki sem fyrir okkur liggur hér. Ég vil því benda hæstv. forseta á að það gæti verið skynsamlegt að endurraða efnisatriðum fundarins með þetta í huga, því að það að framlengja bráðabirgðaákvæði út árið 2023 kallar á miklu meiri umræðu en ég hafði gert ráð fyrir.