152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

leiðrétting á kjörum lífeyrisþega.

[15:20]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Maður kemur hingað næstum því með tárin í augunum og grátstafinn í kverkunum eftir það sem ég heyrði hér á undan. En það breytir ekki þeirri staðreynd að hér stendur öryrki sem nú er á ofurlaunum, fjögurra barna móðir sem grét og kveið jólunum hvert einasta ár, hvert einasta ár, og það í boði sitjandi ríkisstjórna hverju sinni. Heildarendurskoðun á kerfinu, desemberuppbót og töluverður halli sem við eigum að vita að er á ríkissjóði. Skyldi hafa verið hugsað um þennan halla á ríkissjóði þegar hæstv. fjármálaráðherra steig fram fyrir alþjóð í fjölmiðlum og sagði að kostnaður við þennan ráðherrakapal sem nú hefur verið í gangi í boði ríkisstjórnarinnar myndi sennilega hlaupa á einhverjum hundruðum milljóna.

Þingmenn hafa fengið fleiri hundruð pósta, unnvörpum, frá óttaslegnum foreldrum, vansælum fjölskyldum sem eru að biðja um hjálp. Við erum ekki að tala um desemberuppbót, sem hv. þm. Logi Einarsson benti réttilega á að yrði að engu. Þegar búið er að leggja inn ríflega 30.000 kr. á bankabókina hjá öryrkjanum og ellilífeyrisþeganum, sem fær ekkert annað en berstrípaðar almannatryggingar, þá verður ekkert eftir. Þetta skerðir allt saman; heimilisuppbótina, húsaleigubæturnar, skerðir allt saman. Eftir er 0. Er þetta desemberuppbót sem einhver getur verið stoltur af? Svarið er nei. Þetta er bjarnargreiði sem gerir ekkert fyrir fátækasta fólkið í landinu.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra sem hefur ítrekað tekið fram, tvívegis í september 2017, að það að láta fátækt fólk bíða eftir réttlætinu sé það sama og að neita því um réttlæti: Hefur hæstv. forsætisráðherra ekki fengið þetta ákall samfélagsins um það að fá smá jólabónus, skatta- og skerðingarlausan, sem raunverulega nýtist fjölskyldunum, sem getur raunverulega sett mat á diskinn, sem lætur raunverulega börnin okkar ekki fara í jólaköttinn? Er furða að ég spyrji? Það hefur ekkert að segja fyrir öryrkja og aldraða sem eiga ekki fyrir salti í grautinn þó að það eigi að stokka upp þetta handónýta Tryggingastofnunarkerfi sem löngu er orðið tímabært. Það hefur ekkert að segja. (Forseti hringir.) Hæstv. forsætisráðherra: Ætlarðu að reyna að hjálpa fátæku fólki fyrir jólin með því að gefa þeim skattfrjálsa jólauppbót?