152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

loftferðir.

154. mál
[16:28]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Hafi það verið vilji heilbrigðisráðuneytisins á sínum tíma að vinna málið hratt og vel þá varð reyndin í praxís sú að meiri hlutinn í umhverfis- og samgöngunefnd reyndi að vinna það hratt og illa. Og sú fjallabaksleið sem hæstv. ráðherra talar um að hafi verið farin að þessu máli snerist umfram allt og fyrst og fremst um það að meiri hlutinn í umhverfis- og samgöngunefnd þráskallast við að hlusta á sérfræðinga sem bentu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands sem stóð til að brjóta gegn. Það var ekkert flóknara en það. Við fórum fjallabaksleið til að brjóta ekki stjórnarskrárvarin réttindi á íslenskum ríkisborgurum, og ekki bara stjórnarskrá Íslands heldur alþjóðlega mannréttindasáttmála þar sem rétturinn til að ferðast til heimaríkis er varinn. Þetta eru ein af mikilvægustu réttindum þjóðríkisins. Án ríkisborgara er ekkert ríki og ef ríkið getur bara haldið fólki frá landinu þá er nú ansi lítið eftir. Þetta var í alvöru staðan sem við stóðum frammi fyrir. Það tók ekki bara eina fjallabaksleið til að vinda ofan af vitleysunni í meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar, við þurftum að fara nokkra hringi í kringum fjallabak. Við þurftum að kalla málið inn í miðri 2. umr. og á milli 2. og 3. umr. þangað til þingmenn meiri hlutans kyngdu loksins stoltinu og áttuðu sig á því að leiðin sem þau lögðu til braut á stjórnarskrárvörðum réttindum fólks.

Þess vegna hefði mér þótt æskilegt, virðulegur forseti, að mál sem ætlast er til að þingið klári á tveimur vikum fyrir áramót, þó að það sé aðeins framlenging á tímabundnu ákvæði, færi fyrir sjónir almennings, sem það gerði svo sannarlega ekki (Forseti hringir.) í vor þegar það var upphaflega gert að lögum.