152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

loftferðir.

154. mál
[16:33]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Á krísutímum verða mistök. Á krísutímum eru meira að segja oft gerð mistök. Ég held að þegar við getum litið um öxl og skoðað Covid-tímabilið með opnum hug þá væru ein af þeim mistökum það frumvarp sem hér er verið að framlengja, ekki endilega vegna efnis heldur vegna þess hvernig til þess var stofnað. Það var nefnilega farin sú fjallabaksleið að ráðuneyti samgöngu- og sveitarstjórnarmála bað umhverfis- og samgöngunefnd að gera að sínu frumvarp sem snerist um takmarkanir á ferðalögum milli landa.

Auðvitað eiga ráðherrar að leggja svona mál fram. Auðvitað eiga ráðherrar að standa hér og færa rök fyrir máli sínu í þingsal. Auðvitað eiga ráðherrar að bera ábyrgðina þegar upp er staðið frekar en að áframsenda frumvörp á nefndir til að láta þær finna hraðleið í gegnum þingið, vegna þess að það er það eina sem nefndafrumvörp snúast um þegar þau eru flutt með þessum hætti, þau snúast um að komast fram hjá þeim ferlum sem þingið hefur sett sér til að tryggja gæði lagasetningar.

Fyrir vikið var frumvarpið á síðasta vori ekki sent til umsagnar, vegna þess að það gera nefndir giska sjaldan þegar þær leggja sjálf fram frumvörp. En þökk sé vökulum augum fjölda stjórnarandstöðuþingmanna var tekið í handbremsuna hérna í mars og bent á að upphaflega frumvarpið eins og það leit út frá umhverfis- og samgöngunefnd gengi of nærri 66. gr. stjórnarskrárinnar til að við gætum með góðri samvisku samþykkt það. Hæstv. ráðherra sagði hér áðan að umræðan innan nefndarinnar hafi orðið sérkennileg um þetta atriði. En hann mætti kannski frekar líta á sameiginlegt minnisblað síns ráðuneytis, forsætisráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis — gott ef dómsmálaráðuneytið var ekki með þeim líka. Það var bara megnið af Stjórnarráði Íslands sem skrifaði sameiginlegt minnisblað einmitt um að atriðið sem deilt var um væri mjög umdeilanlegt.

Það sem er hins vegar sérkennilegt við umræðuna innan umhverfis- og samgöngunefndar var að stjórnarliðar voru svo blindaðir af því að vera í liði að þeir tóku ekki rökum. Við fengum — nú man ég ekki — ætli við höfum fengið svona fjóra doktora í lögum til að fara yfir þetta með okkur? Ekkert þeirra treystir sér til að slá því föstu að þetta myndi ekki teljast brot á stjórnarskrá. Sum þeirra ganga svo langt að segja að þetta væri klárlega brot á 66. gr., enda er hún býsna skýr. Þar segir, með leyfi forseta:

„Íslenskum ríkisborgara verður ekki meinað að koma til landsins né verður honum vísað úr landi.“

Í frumvarpinu frá umhverfis- og samgöngunefnd var akkúrat þetta lagt til. Þar var lagt til að ráðherra gæti skyldað flugfélög til að meina ríkisborgurum landgöngu, en það átti bara að gera það annars staðar. Það átti að útvista því til erlendra flughafna. Og svo áttu þessi sömu flugfélög að bera þá skyldu að endursenda fólkið sem ekki uppfyllti skilyrði laganna.

Það er eiginlega ótrúlegt hvað stjórnarliðar börðu höfðinu við steininn í þessu máli, vikum saman, alltaf kvartandi undan því hve lítill tími væri til að klára málið en þó alltaf með augun galopin fyrir því hvað lausnin væri einföld. Hún var einfaldlega sú breytingartillaga sem 1. minni hluti umhverfis- og samgöngunefndar lagði fram, en í forystu fyrir þeirri breytingartillögu var hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson. Breytingartillagan var bara að bæta við einfaldri setningu um að þessi skylda næði ekki til íslenskra ríkisborgara. En sérkennilega umræðan í nefndinni, eins og hæstv. ráðherra kemst að orði, snerist dálítið mikið um að stjórnarliðunum, sem fannst ekkert tiltökumál að brjóta mögulega 66. gr. stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu, fannst þetta allt í einu voðalega slæm setning vegna þess að hún gæti farið að mismuna fólki eftir þjóðernisuppruna. Um þetta voru lögspekingarnir nokkuð sammála. Þarna væri verið að mismuna fólki, en það væru málefnalegar ástæður fyrir því, aðallega ein, sem heitir stjórnarskrá Íslands. Bara fín ástæða, bara mjög góð ástæða til að sníða lög til og láta þau ná yfir afmarkaðan hóp, sérstaklega þegar um væri að ræða jafn tímabundna heimild og á endanum var samþykkt.

Það er nefnilega hitt atriðið sem við í minni hlutanum börðumst fyrir. Í mars 2021 lagði meiri hlutinn til að þessi heimild myndi gilda út árið 2022. Í rúmlega eitt og hálft ár átti þessi heimild að gilda frekar en eins og við höfum gert með flestar bráðabirgðaheimildir hér í sal í Covid-faraldrinum, að láta þær gilda í þröngt afmarkaðan tíma vegna þess að þetta er heimild sem skerðir réttindi fólks, að láta hana gilda í þröngt afmarkaðan tíma og framlengja hana frekar þegar nauðsyn er til. Og það hefði náttúrlega verið hægt að gera hvenær sem er. Þó að ríkisstjórnin hafi tekið sér lengsta frí frá þingstörfum sem sögur fara af þá hefði verið hægt að kalla saman þing einn dagpart einhvern tímann í sumar eða einhvern tímann í haust til að framlengja þetta ef þurfa þætti. Annað eins hefur nú verið gert og annað eins var gert í júní þegar við komum saman til fundar til að redda vanköntum sem voru á kosningalögunum sem þurfti að laga.

Virðulegi forseti. Lexían sem ég dreg af þessu er að við eigum bara að hætta þessari dellu. Við eigum að hætta að bjóða upp á það að þingnefndir séu leppar fyrir ráðherra og beri inn mál ráðherra á þingið eins og þau væru þeirra eigin. Það kom nefnilega ekki fram fyrr en við 2. umr. frumvarpsins í vor að það hefði verið samið uppi í ráðuneyti. Fram að því létu hv. stjórnarliðar allir eins og þetta hefði bara verið þeirra uppástunga, þeirra hugmynd, þeim hefði bara dottið þetta í hug, og festu sig fyrir vikið enn fastar í skotgröfunum vegna þess að við í stjórnarandstöðunni værum að gagnrýna þeirra mál. Það er kannski auðveldara að sætta sig við efnislega gagnrýni á frumvörp sem þingmaður stjórnarliðsins ef það er ráðherrann sem mælir fyrir því en ekki þú sjálfur sem stjórnarliði.

Ég held að sá tími sé liðinn að þingnefndir beri fram leiðréttingarfrumvörp ráðherra eða frumvörp sem sett eru fram í því í yfirskini að vera aðeins tæknilegs eðlis. Við brenndum okkur illa á þessu í vor þar sem hluti stjórnarandstöðunnar í umhverfis- og samgöngunefnd lét ginnast með á þetta mál vegna þess að það lá svo mikið á að fólk gat ekki kafað almennilega ofan í það. Það var platað til að styðja mál sem við nánari athugun var því þvert um geð.

Virðulegur forseti. Það sem mig langar að nefna, sem ég ræddi hér í andsvörum við hæstv. ráðherra, er síðan samráðsleysið. Það er eðlilegt þegar við erum í stórsjónum miðjum að við gefum afslátt af því sem við teljum í venjulegu árferði til vandaðra vinnubragða. — Kannski ekki eðlilegt, kannski frekar skiljanlegt, kannski jafnvel nauðsynlegt. Þess vegna var stjórnarandstöðunni talin trú um það í vor að vegna þess flýtis sem yrði að vera á þessu frumvarpi væri ekki hægt að senda það til umsagnar. En svo kom reyndar í ljós að flýtirinn væri ekki meiri en svo að stuttu fyrir páska þegar við biðum og biðum eftir að vera boðuð á fund nefndarinnar til að fara yfir málið þá leyfðu stjórnarliðar málinu bara dingla. Við fengum ekkert að vita af því fyrr en eftir páska. Þannig að flýtirinn var aldrei í alvöru, enda þegar til kom þá var málið ekki samþykkt í flýti heldur með tveggja mánaða umfjöllun á þingi, sem snerist því miður aldrei um það samtal við almenning og hagsmunaaðila sem málin okkar verða að snúast um.

Hérna er frumvarp sem var lagt fram úr einhverju bakherbergi umhverfis- og samgöngunefndar og ráðuneytisins. Það fór aldrei til umsagnar hjá almenningi. Við fengum jú sérfræðinga á fund nefndarinnar, en sökum tímaskorts og pressu treysti enginn þeirra sér til að skila skriflegri umsögn. Þannig að sá skjalahali, sem ætti með réttu að vera á þessu frumvarpi frá síðasta vori sem skerðir réttindi fólks, er ekki til staðar. Í Alþingistíðindum er þetta mál svarthol. Þess vegna og aðallega þess vegna er svo ótrúlega ergilegt að ráðuneytið beri aftur fyrir sig tímaskorti. Níu mánuðum síðar ber ráðuneytið aftur fyrir sig tímaskorti varðandi það að það frumvarp sem við fjöllum um hér í dag hafi ekki verið sent til umsagnar. Þó að það hafi kannski verið tekin ákvörðun seint á hausti og ekki fyrr um að framlengja þetta bráðabirgðaákvæði, þó að fólk hafi ekki áttað sig á því fyrr en kannski í október eða nóvember að þess þyrfti, þá var alltaf tími til að gera betur.

Þetta mál er á þingmálaskránni sem við fengum fyrir tveimur vikum. Önnur af þeim vikum hefði getað verið samráðstími í samráðsgáttinni. Þá hefði ráðherra náð að uppfylla alla vega einhverjar lágmarkssamráðsskyldu. Nú eða þessar tvær vikur hefðu kannski getað verið nýttar hér inni á þingi ef ráðherra hefði náðarsamlegast komið með þetta einfalda mál til okkar strax við þingsetningu. En það er eins með þetta mál og svo ótal mörg mál sem ríkisstjórnin kemur nú með til þingsins undir gríðarlegri tímapressu, en sú pressa er algjörlega heimatilbúin. Hún er búin til með því að ráðherrarnir gáfu sér mjög drjúgan tíma í stjórnarmyndun, svo drjúgan að þeim leiddist og það þurfti að skrifa stjórnarsáttmálann tvisvar og prenta hvorn á eftir öðrum. Og síðan hafa þau verið að mjatla inn frumvörpin til þingsins sem við eigum síðan að hafa tvo, þrjá og fjóra daga til að afgreiða, mál sem geta verið stór, geta verið stærri en einföld framlenging á dagsetningu eins og er í þessu máli. En samt er þetta ekki einföld framlenging á dagsetningu og ekkert annað, heldur eigum við sem þing eftir að taka samtalið innan okkar raða og við almenning sem við störfum í umboði fyrir. Við eigum eftir að taka samtalið um þetta mál frá grunni. Það hefur aldrei átt sér stað. Það er vegna vinnubragða þáverandi umhverfis- og samgöngunefndar og þáverandi ráðherra, sem er hryggilegt að ekki hafi verið brugðist við í þessu máli bara með því að sinna lágmarkssamráði.