152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

loftferðir.

154. mál
[16:57]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Hér hefur verið áhugaverð umræða um þetta mál sem mætti að einhverju leyti segja að væri bara einföld framlenging á lögum sem verið hafa í gildi nú í hálft ár og við höfum getað lifað með. Það hefur verið hjálplegt í baráttunni við Covid-fjárann. Og af hverju ekki bara að framlengja þetta orðalaust og halda áfram með lífið? Ég hef fulla trú á því að þetta mál fari í gegn, en það vekur engu að síður upp býsna sérstaka tilfinningu að sjá það hér. Hv. þm. Andrés Ingi Jónsson fór að mörgu leyti vel yfir það mál og áréttaði það sem mig langar til að segja. Ég tel engu að síður mikilvægt að koma hingað upp og ræða málið fyrir mína hönd og míns flokks. Sem fulltrúi í umhverfis- og samgöngunefnd lagði ég þessa breytingartillögu fram með góðum stuðningi frá öðrum nefndarmönnum úr stjórnarandstöðu. Sem betur fer tók meiri hlutinn við sér og ég þakka fyrrverandi hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir að hafa unnið það mál vel þegar loksins kom að því að þingið kláraði það.

Það er málið með hvernig við förum með þetta blessaða frelsi og hvernig við förum með það þegar við þurfum að skerða það af því að ógn steðjar að okkur. Hætta er á að sú skerðing, sem er jú í þágu velferðar fólks, festist í sessi og að við hugum ekki nægilega vel að mikilvægum atriðum sem varða það hvernig við högum okkar þegar við erum að skerða frelsi. Við skulum ekki gleyma því að forverar okkar höfðu töluvert fyrir því að festa frelsi okkar í sessi og það er ekkert sjálfgefið.

Aðeins um forsöguna: Hv. þm. Andrés Ingi Jónsson talaði um það áðan að málið hefði verið lagt fram af hálfu nefndarinnar og fór býsna vel yfir það hversu slæmt það er þegar verið er að fara svona styttingarleiðir, koma málum fjallabaksleið í þinglega meðferð, til nefnda. Þá er skautað fram hjá formsatriðum eins og því að málin séu rædd og sett í farveg. En þegar málið var lagt fram 18. mars átti að klára það fyrir páska. Það var markmiðið. Páskarnir voru þarna um mánaðamótin. Slíkur átti flýtirinn að vera. Og það var alveg búið að vopna menn í baráttunni þegar maldað var í móinn og minnt á atriði eins og stjórnarskrárbundinn rétt Íslendinga til að koma til eigin lands og taka þá við þeim skerðingum sem boðaðar væru. Þetta snerist aldrei um að banna það eða koma í veg fyrir það. Þetta snerist um að koma í veg fyrir að Íslendingum yrði bannað að koma heim. Þá fóru menn að bera þetta ákvæði saman við það að hingað komi ekki Íslendingar nema sýna vegabréf, að það væri sambærilegt. Þetta var svo mikil vitleysa að það náði engu tali. Við hér ættum öðrum fremur að vera meðvituð um að vegabréfið er persónuskilríki sem við sýnum til að sýna fram á að við erum Íslendingar og eftir að hafa gert það höfum við þann rétt sem stjórnarskráin veitir okkur, þar með talið að fá að koma til landsins.

Það hefur verið farið býsna vel yfir þetta og þessi framlenging nær einungis til vorsins 2022, 1. júlí, og þá eins og málið var samþykkt eftir þá rússibanareið sem það hlaut síðastliðið vor. Það velktist þarna fram og til baka. Mér finnst svolítið sérstakt, ef ég skildi hæstv. ráðherra rétt áðan, að honum þætti málið hafa fengið sérstaka umræðu í umhverfis- og samgöngunefnd. Ég túlka það þannig að það sé þá frekar skot á okkur í minni hlutanum sem stóðum vaktina en meiri hlutann. Ég tel svo ekki vera, ég held að þingið hafi sýnt styrk sinn í þessu máli, staðið í fæturna gegn framkvæmdarvaldinu og gegn valdi embættismanna sem þarna ætluðu að létta sér lífið á kostnað réttinda sem skipta miklu máli. Málið fór þessa rússíbanareið og var lokið á þá leið að það eigi ekki við um för Íslendinga, eins og hér hefur verið farið yfir. Ég tek hins vegar undir það sem fram kom í máli hæstv. ráðherra þar sem hann sagði að betra væri að hafa slíkt ákvæði í sóttvarnalögum. Þar er reynsla til að takast á við svona hluti, vega og meta hættuna sem stafar af farsóttum, mikilvægi sóttvarnaaðgerða og það hvernig fara á með samspil á milli þessara þátta og síðan frelsi og réttindi borgaranna. Það er einfaldlega hætta á að þessir hlutir, þessi mikilvæga umræða, fari undir radarinn og dreifist á marga aðila ef verið er að fara með svona mál inn í hin og þessi ráðuneyti sem hafa takmarkaða reynslu af því að ræða þau.

Ég held að ég fari rétt með, af því að hér hefur verið komið inn á að einhverjir sérfræðingar hafi að mati ráðuneytisins talið að þetta væri algjörlega óhætt, að þeir sérfræðingar hafi verið fjórir. Einn þeirra var frekar jákvæður gagnvart þessu, annar taldi mikilvægt að sýnt yrði fram á það skilyrðislaust hver þörfin væri og hinir sögðu að þetta væri ekki bara á gráu svæði heldur á mjög gráu svæði. Þetta er of veikt til að standa undir skerðingu á rétti borgaranna til að koma til landsins. Við bætist síðan að þessir sérfræðingar treystu sér ekki til að koma með skriflegar umsagnir við málið af því að tíminn væri of stuttur. Það áttu síðan að vera rök fyrir því að að hlusta ekki á þá, að þeir treystu sér ekki til að koma með skriflegar umsagnir. Það var ekki þannig af þeirra hálfu, held ég.

Mér finnst mikilvægt að við stöndum í fæturna og gerum það sem við höfum gert hér í þessum sal frá upphafi faraldursins og byggjum undir þær aðgerðir sem eru nauðsynlegar með lögum. Það hefur gengið vel en við þurfum að taka þetta skref fyrir skref og vega og meta hvert einasta mál fyrir sig af því að annars lendum við í þeim vandræðum sem þetta mál hefði getað leitt okkur út í. Upphaflega átti að klára þetta mál á rúmri viku. Það endaði síðan í einhverjum mánuðum. Þá fór málið ekki í hefðbundið umsagnarferli nema með því að fá munnlega umsögn þeirra gesta sem kallaðir voru til. Ég tel þess vegna mikilvægt — ég átta mig á því að aftur erum við komin í heimatilbúna tímapressu, við getum ekki fært áramótin, þetta ákvæði fellur úr gildi þá — að hv. umhverfis- og samgöngunefnd gefi sér þann tíma sem hún getur til að fá gesti og kalla eftir umsögnum. Þetta er ekki flókið mál, það er hægt að hóa aftur í þá sem talað var við fyrir ríflega hálfu ári og leita álits þeirra.

Við erum núna komin í aðra og jafnvel þriðju umferð í framlengingu á þessum skerðingarákvæðum og það er ákveðið hættusvæði. Það er því mjög mikilvægt að við sofnum ekki á verðinum í þessu máli öllu. Viðvarandi skerðingar af þessu tagi án þess að þær séu rökstuddar og án þess að það sé útskýrt fyrir borgurunum að framlengja þurfi þær óbreyttar — þótt nú sé nær öll þjóðin bólusett, ekki einu sinni, ekki tvisvar heldur þrisvar, þrátt fyrir að mun færri séu veikir, þrátt fyrir að álagið á Landspítalann sé minna, er samt verið að halda þessum skerðingum. Og það eru alveg rök fyrir því. Við þurfum bara að sýna borgurum þessa lands þá virðingu að nenna að ræða þau rök hér og í þeim nefndum Alþingis sem eiga að búa málið undir endanlega afgreiðslu. Vegna þess að á sama tíma og þessi staðreynd með bólusetningar er jákvæð stöndum við frammi fyrir því að þol fólks gagnvart skerðingum er að minnka og samstaðan að sama skapi, og hún skiptir máli. Besta leiðin til að halda þessari samstöðu er að tala við fólk, að við tölum við fólk og að við útskýrum af hverju þessi framlenging þarf að eiga sér stað, hvað okkar helstu spekingar hafa sagt um málið og hvað við sjáum fyrir okkur að gerist í sumar að gefnum tilteknum skilyrðum og hvernig ferli við ætlum þá að láta svona mál fara í gegnum. Fólkið okkar á heimtingu á því. Við viljum þetta, held ég. Miklu betra er að eyða tímanum í samtalið hér innan dyra um mál sem við erum líklega 95% sammála um frekar en einhver rifrildi fram og til baka, líkt og við stóðum í í einhverjar vikur síðastliðið vor um þetta mál, sem ég held að allir hafi verið dauðfegnir að lauk eins og því lauk. Það stóð eitthvað annað í veginum fyrir því, þvergirðingsháttur held ég að sé rétta orðið. Ég óska þess að málið fái slíka meðferð og við getum rætt þetta af þeirri virðingu sem það á skilið af því að um það snýst þetta. Þannig náum við samstöðunni.