152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

fjarskipti o.fl.

169. mál
[20:01]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni fyrir þessa ljómandi ræðu, hún var raunsönn og raunveruleikatengd. Ég tek heils hugar undir það með honum að við getum ekki sýnt barnaskap og einfeldni í þessu. Við verðum að átta okkur á því að þessi mál eru að þróast með gífurlegum hraða og fela í sér ákveðna ógn við þjóðaröryggi allra þjóða heims, allra landa, og þar eru Íslendingar ekki undanskildir. Við verðum að vera vakandi. Ég tek undir það, eftir að hafa verið með hv. þingmanni í NATO-nefndinni, að þessi mál hafa í raun verið alfa og omega flestra funda. Það hafa komið upp ákveðin mál, eins og einmitt Úkraínumálið og náttúrlega hegðun Rússa á ákveðnum sviðum, hvort sem er á sviði mannréttinda eða ögrandi tilburða, og alltaf er umræðan um netöryggi mjög mikil og víðfeðm af því að það hefur svo mikil áhrif á þjóðaröryggi okkar og skiptir máli. Það hafa orðið grundvallarbreytingar á síðustu fimm til tíu árum, hvað þá 15 til 20 árum, með tilliti til þessa. Upplýsingar eru að verða verðmæti í dag og aðgangurinn að þeim. Það kom mér því mjög spánskt fyrir sjónir hversu illa ríkisstjórnin og ekki síst samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, nú innviðaráðherra, var búinn undir þessa umræðu um Mílu. Þessi kaup snúa ekki að beinu eignarhaldi heldur fyrst og síðast að því hvernig við verjum almannahagsmuni og höfum yfirsýn yfir það hvernig við tryggjum öryggi landsmanna, bæði hvað varðar uppbyggingu innviða hér innan lands en líka hvað það varðar að tryggja þjóðaröryggi. Það kom mér á óvart að ekki var hægt að svara einföldum spurningum um hvernig það hefði verið gert af hálfu þjóðaröryggisráðs og ráðuneytisins.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hefði hann viljað sjá ríkisstjórnina taka öðruvísi á málum og sýna meira frumkvæði í þessum málaflokki (Forseti hringir.) sem annars er oft settur svolítið til hliðar, og því miður allt of oft?