152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

fjarskipti o.fl.

169. mál
[20:08]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Þjóðaröryggisstefnan var samþykkt vorið 2016, minnir mig, og sá sem hér stendur kom á þing í lok október 2016 og hefur talað um þetta síðan í mörgum málum, víðs vegar, hvort sem það snýr að flutningskerfi raforku, netöryggi, samgöngum, þessum grunninnviðum. Ég hef einmitt nefnt Norðurlandaþjóðirnar, ríki eins og Svíþjóð. Nágrannalönd okkar hafa verið með slíka löggjöf í áratugi, 30 til 50 ár, þar sem verið er að verja æðstu stjórn landsins. Þingið ver þessa grundvallarhagsmuni með lögum. Við höfum verið svolítið barnaleg í nálgun okkar með því að vera ekki með alvörulöggjöf sem snýr að þessum málum, svona grundvallarlöggjöf.

Ég minntist á það í ræðu minni áðan að nú eru liðin fimm ár frá því að þjóðaröryggisstefnan var sett fram vorið 2016, það eru þá sex ár í vor. Ég reikna með að sú vinna hljóti að skila sér og að ný þjóðaröryggisstefna verði kynnt á næsta ári. Mér skilst að síðan hafi það komið fram í umræðu hér að löggjöf eigi að koma fram á komandi ári, frá hæstv. forsætisráðherra, sem snýr að innviðum landsins. Ég vona að það verði gott innlegg inn í þetta sem byggir þá á því sem kemur fram í skýrslubeiðninni og í skýrslu hæstv. forsætisráðherra. Það eru ótal mörg atriði — ég vil ég ítreka það við hv. þingmenn að lesa svör hæstv. forsætisráðherra í umræðum um skýrslubeiðni og það sem kemur fram í skýrslunni — sem hægt er að byggja alvörulöggjöf á, sem grundvallarmál. Ég trúi ekki öðru en við höldum áfram að byggja upp alvörulöggjöf sem snýr að svona gríðarlega mikilvægum málum.