152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

fjarskipti o.fl.

169. mál
[20:12]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég kom inn á í ræðunni áðan þá snýst þetta um löggjöf, öfluga löggjöf til að verja hagsmuni íslenskra borgara og landsins í stóru myndinni. Hver á viðkomandi starfsemi finnst mér ekki vera aðalatriðið. Það er hins vegar lögin, löggjöfin á bak við sem unnið er eftir, eftirlitshlutverkið, að þess sé gætt að þannig sé staðið að málum að við tryggjum almannahagsmuni landsins og þjóðaröryggi. Það er það sem ég er að kalla eftir með öflugri löggjöf og vonandi erum við að stíga þannig skref á mörgum sviðum. Nú erum við að ræða um það sem snýr að fjarskiptum og slíkum hlutum.

Ég er ekkert viss um ef þetta hefði allt verið í eigu ríkisins síðustu 30 ár, þessi stofnljósleiðari, að sú gríðarlega þróun hefði orðið í fjarskiptum á Íslandi, sú nýsköpun og allt sem hefur gerst á 30 árum, sem hefur skilað okkur á toppinn í heiminum í fjarskiptum ár eftir ár, á listum sem koma að utan yfir fjarskipti. Ég held að það hefði ekki endilega náðst ef ríkið hefði verið með allt eignarhaldið á þessu. Þá held ég að nýsköpunin hefði ekki verið sú sama og ekki fjárfesting í kerfinu og að við hefðum ekki byggt upp þetta öfluga kerfi. Ég er bara að benda á það. Aðalatriðið í mínum málflutningi er að við sem hér stöndum tryggjum löggjöf sem snýr að þjóðaröryggi og tryggir það.

Það má líka benda á þegar ég er að tala um fjarskiptin — nú er tíminn að styttast — varðandi ljósleiðaravæðinguna og 5G-væðinguna, eins og sagði áðan, að hver einasti sendir sem er með 5G-tækninni er ljósleiðari. Sendarnir eru helmingi þéttari en þeir hafa verið í hinu kerfinu þannig að ljósleiðarinn er undirliggjandi í öllu saman. Það er allt þetta sem við þurfum að tryggja. En það er erfitt að klára svona umræðu á örfáum sekúndum í þingsal.