152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

fjarskipti o.fl.

169. mál
[20:17]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki hvar ég á að byrja en það er kannski grundvallaratriði að hafa það á hreinu að það er ekki íslenska ríkið sem hefur fjármagnað alla ljósleiðaravæðingu innan lands síðustu ár og áratugi. Ísland ljóstengt t.d., þar sem hinar dreifðari byggðir voru ljósleiðaravæddar, lagning á ljósleiðara í dreifðu byggðunum, ríkið lagði til pening þar en það náði því kannski að vera tæpur helmingur fjárfestingarinnar í stóru myndinni. Þar að auki hafa orkufjarskipti og einkaaðilar, eins og á mínu svæði fyrir norðan, í Eyjafirðinum — þar var gríðarlega snemma ljósleiðaravætt. Það er einkafyrirtæki sem heitir Tengi sem fór í málið og tengdi fjörðinn og út um sveitirnar og austur út um allt. Ótrúlegt framtak og hefur gert gríðarlega mikið fyrir svæðið. Ríkið sem slíkt og þessi ljósleiðarahringur, stofnljósleiðarinn frá því fyrir 30 árum þegar hann var tekinn í notkun — ofan á það hefur byggst gríðarlega mikið af einkaframtaki og síðan Ísland ljóstengt. Kannski er stærsta vandamálið í dag þorpin og þessir minni staðir og við sjáum vonandi fram á að úr því verði bætt. Ég ætla ekki að samþykkja að aðili sem ætlar að gera sem mest úr þessari fjárfestingu, sem er stór, í ljósleiðaranum, muni ekki gera allt til að ná sem mestu út úr fjárfestingunni. Ég held að þetta sé einmitt tækifæri og að hann muni gera meira vítt og breitt um landið til að nýta heildarfjárfestinguna betur. Síðan getum við rætt í sérstakri umræðu um ljósleiðaravæðingu í heiminum, þessa þrjá fjarskiptastrengi sem eru að koma að utan og hvað við gætum gert ef við myndum nýta ljósleiðaratengingarnar í landinu betur, ákveðnar tengingar, og möskvunin yrði betri. Þar værum við komin í fjórðu iðnbyltinguna og framtíðina, græna orku og öflug fjarskipti. Þess vegna þurfum við að hafa alvöruþjóðaröryggislöggjöf á bak við báða þessa hluti og heildarmálið.