152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

fjarskipti o.fl.

169. mál
[20:31]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Já, þetta er gríðarlega umfangsmikið mál þó að frumvarpið sjálft sé eins og það er. Það er greinilegt að ríkisstjórnin hefur pínulítið verið tekin í bólinu þegar kemur að þessum málum. Ég held að þetta frumvarp, þó að verið sé að reyna að bjarga því sem bjargað verður, beri vitni um að ríkisstjórnin hafi ekki haft augun á boltanum þegar kemur að sölunni á Mílu og ekki síst þegar kemur að þjóðaröryggismálum. Ég leyfði mér fyrir einhverjum mánuðum síðan að spyrja hvar þjóðaröryggisráð hefði verið varðandi söluna á Mílu því að hún hefur verið í bígerð í nokkurn tíma, hátt á annað ár, þannig að það hefði ekki átt að koma á óvart að verið væri að undirbúa söluna. Ég hef verið að reyna að fá fram hvenær þjóðaröryggisráð hafi í rauninni fjallað um þetta og mér sýnist að þjóðaröryggisráð hafi ekki fjallað um þetta fyrr en þessi mál voru komin í fréttir og við vorum byrjuð að spyrjast fyrir um þau. Það er líka alveg augljóst af fundum okkar formanna þegar við óskuðum eftir því þegar þing var ekki starfandi og hæstv. forsætisráðherra og þáverandi utanríkisráðherra aumkuðu sig yfir formenn flokka á þingi, af því að það var ekkert virkt þing, ekkert eftirlit með framkvæmdarvaldinu, að fara yfir málið. Þá var ekki hægt að svara einföldum skýrum spurningum þegar kom að því hverjir eiga innviðina, hverjir muni eiga fyrirtækið. Hvað verður ef land X — mér fannst það ágætt sem hv. þm. Andrés Ingi Jónsson kom inn á áðan — ef fyrirtækið X í eigu einhverra kaupir fyrirtæki og þetta fyrirtæki er í landi Y sem setur ákveðnar reglur um að fyrirtækið verði að afhenda allar upplýsingar eða hlera fyrir hönd þess ríkis. Þetta er ekki útópía. Þetta eru raunhæf dæmi, bara þannig að það sé sagt. Það er alveg hægt að tala um þessi lönd hérna tæpitungulaust. Við erum að tala um lönd sem bera ekki endilega mikla virðingu fyrir lýðræðinu, fyrir mannréttindum. Það eru lönd eins og Kína og líka lönd eins og Rússland. Þess vegna er það ekki tilviljun, eins og kom fram í ræðu hv. þm. Njáls Trausta Friðbertssonar áðan, að a.m.k. þessi fjögur ár sem ég sat í NATO-nefndinni með hv. þingmanni var einmitt verið að ræða um þessi mál, hvernig NATO-ríki, vestræn lýðræðisríki gæti að því að þessir innviðir séu undir stjórn þeirra ríkja sem innviðirnir snerta. Þurfa þeir að vera í eigu ríkisins? Nei, ekkert endilega. En það þarf að vera skýrt regluverk. Það er algjört lykilatriði.

Mér finnst með ólíkindum eftir að við samþykktum hér þjóðaröryggisstefnu árið 2016 — fyrir utan Vinstri græn sem samþykktu hana ekki. Þau eiga samt að sjá um að fylgja stefnunni eftir og gott og vel en það er ekki endilega mikið traust í því. En þannig er þetta og ég hefði haldið að hinir flokkarnir, sem hafa þó verið stuðningsaðilar þess að við byggjum upp hér öflugt vestrænt varnarsamstarf, myndu halda forystuflokknum í ríkisstjórninni við efnið. En það er ekki endilega tilfinningin þegar við skoðum söguna, ekki bara að þjóðaröryggisstefnan hafi verið samþykkt 2016, það hefur lítið gerst í þessum málum þrátt fyrir að þróun í fjarskiptum, uppbygging ljósleiðara, aðgangur að upplýsingum, blokkun á upplýsingum, skuli vera á fleygiferð og vera verðmæti sem óvinveitt ríki vilja hugsanlega komast yfir.

Það var mikilli og merkri skýrslu skilað hér fyrr á árinu, svör við mikilvægum spurningum. Þar er m.a. dregið fram að það séu fá ef nokkur stærri neyðar- og öryggisfjarskiptakerfi á landinu og gagnvart umheiminum sem eru algerlega óháð eða sjálfstæð almennum fjarskiptakerfum. Það er líka dregið fram að sérstaklega hafi verið varað við því að þjónusta sé of háð einum birgi eða framleiðenda búnaðar og gera þurfi sérstakrar öryggiskröfur vegna afmarkaðra hluta fjarskiptakerfa. Það var líka dregið fram að framlag birgja við uppbyggingu 5G-farneta sé sérstakt skoðunarefni þar sem hugbúnaður eða íhlutir í vélbúnaði, með leyfi forseta:

„… kunna að gera kleift að opna bakdyr til ólöglegrar gagnaöflunar“ — hugsanlega ríkja — „og/eða til að stýra eða stjórna búnaði eða netum. Hvort sem það gæti komið upp eða ekki eru gerðar æ harðari kröfur um öryggisbúnað farneta, sérstaklega þeirra hluta sem stýra kerfum eða teljast mikilvægir og viðkvæmir af öðrum ástæðum.“

Þetta er alveg skýrt. Þetta kemur fram í skýrslu frá forsætisráðherra. Samt var engu hægt að svara á fundum okkar um þetta mál. Eftiráviðbrögð, eftiráaðgerðir, verið að paufast við eftir að salan er komin í gegn að reyna að búa til einhvern samning sem á síðan að fá stoð í lagaumgjörð frá þinginu. Þetta eru ekki boðleg vinnubrögð og ég hefði einmitt haldið að þetta myndi ekki gerast á vakt m.a. Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn. En þetta er það sem er að gerast, hvorki Vinstri græn né Framsóknarflokkurinn gátu svarað einu eða neinu til um þjóðaröryggisvinkilinn í þessu ferli öllu.

Það hefur sérstaklega verið talað um þjóðaröryggisráð og ég ætla aðeins að ræða það en ég vil líka draga fram, af því að hv. þm. Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingar, nefndi söluna á Símanum á sínum tíma, að mér finnst skipta máli að það eru eðlileg sjónarmið í þá veru að ríkið og ríki eigi að standa undir öllum grunninnviðum. Ég virði alveg þau sjónarmið. Ég er ekki alveg sammála þeim í öllu en skil þau á ákveðnum sviðum. Á að selja Landsvirkjun? Nei. Fyrir mína parta nei. En við höfum einfaldlega reynslu af því að einkaaðilar hafa komið að uppbyggingu ljósleiðara, uppbyggingu fjarskiptakerfa sem hefur engu að síður leitt okkur Íslendinga í það umhverfi að við erum fremst. OECD og fleiri segja að við séum fremst meðal þjóða þegar kemur að aðgengi fólks, fyrirtækja, netnotkun o.fl. Það er m.a. út af því að það hafa verið fjárfestar, það hefur verið fjárfest í uppbyggingu innviða. Á móti, og ég hef bent á það, sjáum við að ríkið stendur sig ekki þegar kemur að t.d. flutningskerfinu okkar. Það er einfaldlega vegna þess að við erum búin að vera hér í níu ár með flokka sem hafa meira og minna borið ábyrgð og eiga að bera ábyrgð á því að byggja upp flutningskerfið en hafa ekki staðið sig þar. Svo er jarmað í hverri einustu kjördæmaheimsókn af hálfu þessara þingmanna og rétt fyrir kosningar að nú skuli byggja upp innviði, þessir sömu flokkar sem bera beinharða ábyrgð á því að við erum ekki með flutningskerfi sem er nógu burðugt til að standa undir almennilegum rekstri á heimilum á Vestfjörðum, fyrirtækjum á Vestfjörðum, heimilum á Suðurnesjunum, fyrirtækjum á Suðurnesjunum, atvinnulífi á Norðurlandi. Á þessu öllu bera þau ábyrgð. Svo er lýst rosalegri hneykslun loksins yfir að það þurfi að byggja þetta upp þegar útgerðin lendir í vandræðum. En það er alla vega mikilvægt að farið sé af stað. Þetta var aukalega en ég tel mikilvægt að við lítum til þessa.

Þýðir þetta að við eigum ekki að hafa áfram augun á boltanum og setja skýrar kröfur? Nei, ef þessir grunninnviðir eru í höndum einkaaðila, sérstaklega ef um einokun er að ræða, og það má alveg spyrja sig hvort sé verra, ríkisrekin eða einkarekin einokun, en ef það er fyrirtæki sem rekur umfangsmikla grunninnviði og hefur gengið ágætlega, eins og ég sagði bæði um Mílu, Sýn og Vodafone, þá verðum við að hafa skýrt regluverk. Við verðum að passa upp á það að neytendur hafi greiðan aðgang að öflugu kerfi, séu heldur ekki teknir í bakaríið þegar kemur að verðlagningu. Við höfum fram til þessa verið með nokkuð hóflega verðlagningu. Það er m.a. út af því að Póst- og fjarskiptastofnun, núna Fjarskiptastofa, og líka Samkeppniseftirlitið hafa sinnt aðhaldshlutverki þannig að það er svolítið að fúnkera. Það sem er ekki að fúnkera í tengslum við alla þessa sölu, að mínu mati, þó að við þurfum vissulega að skoða hvernig við munum passa upp á þjónustuna fyrir neytendur til skemmri og lengri tíma, er eftirlitshlutverkið með þjóðaröryggi. Það er það sem fúnkerar ekki í öllu þessu.

Við getum haldið áfram að tala um pólitíkina, um kosti þess að fá einkaaðila að borðinu, kosti þess að hafa „public private partnership“, svo ég fái að sletta, með leyfi forseta. Það hefur víða gefist vel. Við sjáum það t.d. beint og óbeint í gegnum Hvalfjarðargöngin. Við höfum séð það víða í rekstri flugvalla, í ýmsum löndum, með góðum en líka slæmum árangri. Það fer allt eftir umhverfinu, regluverkinu og skýrri gegnsærri sýn um það hverju við erum að ná í gegn með því að fá einkaaðila að borðinu. Þannig að mínar athugasemdir og áhyggjur af þessu máli öllu eru að ríkisstjórnin er ekki með fókus á þessu mikilvæga máli sem flokkast undir þjóðaröryggi. Og já, það er barnaskapur ef við ætlum ekki að einblína á þá þætti. Það er líka barnaskapur af hálfu þeirra, af hálfu okkar sem flokkum okkur svona miðju/hægra megin, fyrir þau okkar sem eru fyrir frjáls viðskipti, frjálsan markað, opinn markað, trúa svolítið á einkaframtakið, að spyrja ekki spurninga. Við eigum bara að klappa og klappa af því að jú, þetta eru 78 milljarðar. Við eigum að halda kjafti og þegja af því að þetta eru svo rosalegir peningar. Þetta eru svo mikilvæg viðskipti. En við eigum einmitt að snúa þessu við og spyrja, af því að við trúum á það að frjáls og opin viðskipti þoli spurningar, þoli gagnrýnar spurningar sem snerta hag neytenda, almannahag og þjóðaröryggi. Það á enginn að ókyrrast yfir því.

Ég ókyrrist þegar samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra virðist ekki hafa hugmynd um hvað verið er að selja. Fyrr á árinu ræddum við mjög mikið söluna á Sýn og Vodafone, á þeim innviðum sem þeir seldu. Það voru óvirkir innviðir upp á 14 milljarða hjá Vodafone. Það var farið mjög vel yfir það og ég hélt einfaldlega eftir alla þá umræðu í nefndum þingsins og á þinginu að við værum pínulítið betur tilbúin. Við erum líka með skýrsluna frá forsætisráðherra. Ég hélt að kerfið, stjórnkerfið allt, væri að fúnkera hér. Það er aldeilis ekki svo. Svo kemur sveitarstjórnarráðherra í fréttum Ríkisútvarpsins og segir: Við erum bara selja hér óvirka innviði, það er bara það sem um er að ræða. Allir sem fylgjast með vita að Míla er með meira og stærra hlutverk þarna enda er umfangið eftir því, 78 milljarðar, það mikið að hafa þarf sérstakt samráð við Seðlabankann til þess að vita hvaða áhrif þessi sala hefur á gengi krónunnar.

Þannig var nálgunin hjá ríkisstjórninni, að þetta skipti engu máli. Það væri bara frábært að fá þessi viðskipti. Og ég tek undir það, vil absolút taka undir það. En við megum spyrja spurninga og þá verður stjórnkerfið og atvinnulífið líka að vera tilbúið í ákveðna umræðu, af því að við eigum að hafa lært það, fjandakornið. Við eigum að hafa lært af reynslunni að þessir hlutir verða að vera á hreinu. Ég segi: Lái mér hver sem vill. Þannig að við sem erum stuðningsfólk einkarekstrar, stuðningsfólks opins frjáls markaðar, eigum að spyrja spurninga og vera óhrædd við það. Við eigum líka að spyrja um þjóðaröryggi og ég fagna því ef við ætlum að fara fókusera meira á það núna. En þá vil ég líka að ríkisstjórnin sýni frumkvæði. Þjóðaröryggisráð, samráðsvettvangur, já, en þeir sem eru þar eiga ekki bara að sitja undir einhliða miðlun upplýsinga, þeir eiga að spyrja spurninga. Af hverju kom samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra ekki og kynnti málið, hvaða þýðingu það hefði fyrir þjóðina, fyrr en eftir að við vorum búin að spyrja um þetta, fyrr en einhvern tímann í nóvember? Þá byrjaði þjóðaröryggisráð að fjalla um þetta. Hvers konar handarbaksvinnubrögð og metnaðarleysi er þetta?

Virðulegi forseti. Í mínum huga fer allt of lítill tími í að ræða þetta. Þetta er risamál og ég veit að umhverfis- og samgöngunefnd hefur gert vel í vetur í því að fara yfir málin, gera þau betri. Þetta er mál þar sem ríkisstjórnin var sjálf í málþófi við sig og sína, stoppaði sjálf þetta mál. Það var nú allur forgangurinn hjá Vinstri grænum og hinum flokkunum. Þetta mál var stoppað síðastliðið vor af hálfu ríkisstjórnarflokkanna. (Forseti hringir.) Hver er nú metnaðurinn í þjóðaröryggi? En ég veit og er sannfærð um að umhverfis- og samgöngunefnd mun gera allt sem hún getur til að bæta þetta mál og auka enn frekar umræðu um þennan mikilvæga málaflokk.