152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

fjarskipti o.fl.

169. mál
[20:46]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir ræðuna. Það er ofboðslega gaman að hlusta á hv. þingmann þegar hún brennur svona fyrir efninu og lifir sig inn í þetta. Ég get tekið undir margt sem kemur fram í ræðu hennar. Ég held að við deilum sýn á mikilvægi opins og frjáls markaðar og erlendra fjárfestinga hér á landi og ég tek bara undir það, við eigum að spyrja spurninga. Til þess erum við hérna. Ég var ein af þeim sem kölluðu eftir skýrslu forsætisráðherra sem vísað hefur verið í hér í þessari umræðu og ég held einmitt að það sé góð skýrsla og við þurfum að nota hana meira. Það er reyndar ekki svo langt síðan hún kom fram og í kjölfarið hefur verið boðuð löggjöf, m.a. löggjöf sem ég hef líka kallað eftir hér í ræðum og við höfum rætt, til að mynda í hv. utanríkismálanefnd, að við þurfum að fara í rýni á innviðafjárfestingum. Þá skiptir ekki endilega máli hvort það eru erlendir aðilar eða innlendir aðilar. Þegar við erum að tala um mikilvæga innviði, sem geta jú alveg verið í eigu einkaaðila, þá þarf að rýna slíkt út frá þjóðaröryggishagsmunum. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni hvað það varðar.

Hv. þingmaður kom inn á þjóðaröryggisráð sem ég hef litið svo á að væri mjög mikilvægur vettvangur. Ég á reyndar ekki sæti í þjóðaröryggisráði, en ég spyr hv. þingmann hvort það sé ekki rétt munað hjá mér að hún sitji í þjóðaröryggisráði. Mig langar jafnframt að spyrja út í það sem hún sagði í ræðu sinni, að henni hefði fundist eftirlitið klikka varðandi þjóðaröryggi. Ef hv. þingmaður gæti aðeins farið betur yfir hvað hún á við með því.