152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

fjarskipti o.fl.

169. mál
[21:09]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mikið hefur verið talað í dag um raforkukerfið og þjóðaröryggi. Verandi nýr á þingi þótti mér athyglisvert að sjá að inn í raforkulög var bætt, fyrir einungis örfáum mánuðum, þeirri kröfu að raforkudreifikerfið væri í beinni eigu ríkisins eða sveitarfélaga. En þegar kemur að því að tala um stafræna innviði erum við að gera akkúrat öfugt. Það hefur líka verið talað um það í dag að þjóðaröryggi sé að miklu leyti háð öryggi innviða landsins. Við sjáum ekki lengur sömu hættu á því að hingað komi einhverjir tindátar að slást við okkur heldur nota þeir stafræna innviði okkar til að hafa áhrif á okkur. Það er líka mjög mikilvægt að átta sig á því að stafrænir innviðir eru ólíkir öðrum innviðum að því leyti að það er auðvelt að taka allt sem um þá fer og beina því annað. Það er ekki mjög auðvelt, t.d. með vegakerfið okkar, að láta alla keyra í gegnum Færeyjar. En það er ekkert mál að taka alla nettraffík á Íslandi og senda hana eitthvað annað og það þarf ekkert endilega að útvista einhverju, eins og stendur í lögunum, til að slík áhætta sé fyrir hendi. Það er nefnilega þannig að þegar erlendur aðili eignast þessa stafrænu innviði þá getur sá erlendi eigandi þurft að hlýða fyrirmælum þess lands sem hann starfar í. Hvað myndi gerast ef DGSI, sem er njósnaþjónusta franska ríkisins, myndi taka ákvörðun rétt eins og danska leyniþjónustan gerði fyrir hönd Bandaríkjanna frá 2012–2014 og var opinberað fyrr á þessu ári? En við lítum kannski á þetta út frá því að um vinveitt land sé að ræða. Ég spyr sjálfan mig hvernig viðbrögðin væru ef svo væri ekki. En hverjir eru í raun vinveitt þjóð ef frændþjóð okkar, Danir, var tilbúin að njósna um embættismenn Íslands og annarra Evrópuríkja?

Ég tel því mikilvægt, þegar hv. umhverfis- og samgöngunefnd skoðar þessi mál, að þau fái til sín aðila sem hafa tæknilega þekkingu á því hvort það sem nefnt er í frumvarpinu dugi til þess að tryggja stafrænt sjálfstæði Íslendinga til framtíðar. Það er skýlaus krafa okkar að við getum átt örugg fjarskipti hér innan lands án þess að einhver annar sé að hlusta á allt sem við segjum.