152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

fjarskipti o.fl.

169. mál
[21:34]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu og ég held að við séum sammála um mjög margt þarna, sér í lagi þegar kemur að þjóðaröryggi og því að tryggja stafrænt sjálfstæði okkar. En mig langar aðeins að tala um annan hlut sem er ekki tengdur þjóðaröryggi nema kannski að einhverju leyti, þ.e. að þau dreifikerfi sem þarna eru, ákveðin grunnnet í þjónustu þjóðarinnar og ljósleiðari, eru, eins og kemur fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, að vissu leyti mikil forsenda fyrir dreifðari byggðir á Íslandi og því að geta drifið nýsköpun og ýmislegt annað. Ég spyr mig svolítið um það þegar ég sé alla þessa fjárfestingarsjóði vera að kaupa innviði, hvort sem það eru virkir eða óvirkir innviðir, því að eftir að hafa unnið náið með svona fjárfestingarsjóðum þá veit ég að þeir hafa ákveðin markmið sem er að búa til peninga, á meðan markmið ríkisins eru kannski frekar að fá internet og ljósleiðara út um allt land. Þá spyr ég hv. þingmann hvort hann telji að það að fjárfestingarsjóðir séu að eignast þessa innviði geti gert stafræna framtíð landsins dýrari og erfiðari þegar gróðasjónarmið ráða öllu í uppbyggingunni og viðhaldinu frekar en byggðasjónarmið og stefna ríkisins í þeim málum.