152. löggjafarþing — 10. fundur,  14. des. 2021.

dýralyf.

149. mál
[13:50]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni mjög góðar spurningar og ég hugleiddi að einhverju marki þær spurningar sem hv. þingmaður ber hér fram. Varðandi það hvort eitthvað sé séríslenskt er með þessari hreinu innleiðingu verið að taka yfir allt sem er þegar í gildandi lögum, þ.e. verið er að taka beint upp það sem snýr að gildandi lyfjalögum, kemur hingað inn og samræmist reglugerðunum. En ég kann ekki að svara þessu frekar en svo. Ég gæti ekki tiltekið einhver sérstök atriði í þeim efnum að svo stöddu.

Varðandi sýklalyfjaónæmi — og ég skoðaði það alveg sérstaklega af því að það er ógn, það er heimsógn og við erum í algerri sérstöðu þegar kemur að notkun sýklalyfja í matvöru. Ég veit að hv. þingmaður þekkir það mjög vel sem fyrrverandi hæstv. landbúnaðarráðherra og þekkir umræðuna og allar skýrslur um þá ógn. Hafandi skoðað þetta mál og þær umsagnir sem komu í samráðsgáttinni sýnist mér það styrkja okkur í þessari stöðu með þeim gagnagrunnum sem verið er að leggja til, sérstaklega vörugagnagrunninum og gagnagrunni um framleiðslu og heildsöludreifingu, hvaða lyf eru í umferð, og ekki síst lyfjagátargagnagrunninum.

Þetta með þverfaglega teymið, (Forseti hringir.) ég þekki það ekki. Ég mun spyrja að því þegar við erum búin með þessa umræðu.