152. löggjafarþing — 10. fundur,  14. des. 2021.

fjárhagslegar viðmiðanir o.fl.

164. mál
[13:57]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjárhagslegar viðmiðanir og lögum um lykilupplýsingaskjöl vegna tiltekinna fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta.

Frumvarpið snýr annars vegar að lögfestingu á breytingum á Evrópureglum um fjárhagslegar viðmiðanir, sem eru vísitölur sem liggja til grundvallar samningum á fjármálamarkaði. Til dæmis er algengt að vextir af bankalánum jafngildi vísitölum sem eiga að mæla vexti milli banka með ákveðnu álagi. Breytingarnar koma fram í reglugerð Evrópusambandsins 2021/168. Reglugerðin heimilar framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og lögbærum yfirvöldum í aðildarríkjunum að ákveða við hvaða viðmiðun skuli stuðst ef hætt er að birta viðmiðun sem samningar styðjast við og samningsaðilar hafa ekki komið sér saman um aðra viðmiðun til að styðjast við.  

Heimildin tekur mið af því að nú eftir áramót stendur til að hætta að birta Libor og EONIA, sem eru hvort tveggja viðmiðanir sem eiga að endurspegla vaxtakostnað banka og liggja til grundvallar fjölmörgum samningum á fjármálamarkaði. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur gefið út tvær reglugerðir þar sem fram kemur að í stað Libor í svissneskum frönkum skuli stuðst við svissneska meðaldagvexti og að í stað EONIA eigi að styðjast við skammtímavexti í evrum.

Til stóð að leggja frumvarp um lögfestinguna fram í febrúar, en Samtök fjármálafyrirtækja hafa lýst því yfir að það væri mikið hagsmunamál fyrir íslensk fyrirtæki að gerðunum yrði veitt gildi fyrir áramót eða um áramótin til að forðast röskun og óvissu sem ella leiddi af því að hætt verður að birta þessar viðmiðanir, Libor og EONIA. Því var meðferð málsins flýtt, borið saman við þingmálaskrána, eins og kostur var.

Hins vegar snýr frumvarpið að því að framlengja undanþágu sem rekstrarfélög verðbréfasjóða og rekstraraðila sérhæfðra sjóða fyrir almenna fjárfesta hafa haft frá lögum um lykilupplýsingaskjöl vegna tiltekinna fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta. Framlengingin tekur mið af hliðstæðri framlengingu á undanþágu í Evrópugerðum sem Evrópusambandið samþykkti nú í desember. Framlengingu undanþágunnar er ætlað að koma í veg fyrir að fyrirtækjunum beri að útbúa svonefnd lykilupplýsingaskjöl, sem eru samandregnar upplýsingar um fjárfestingu fyrir almenna fjárfesta, bæði samkvæmt lögum um lykilupplýsingaskjöl og lögum sem gilda um viðkomandi fyrirtæki. Það léttir óþörfum tvíverknaði af fyrirtækjunum en kemur einnig í veg fyrir rugling sem gæti skapast ef almennir fjárfestar fengju tvær mismunandi útgáfur af lykilupplýsingaskjölum. Evrópusambandið gerir ráð fyrir því að í upphafi árs 2023 verði búið að ákvarða varanlegt fyrirkomulag sem geri frekari framlengingu undanþágunnar óþarfa.

Talið er brýnt að lögin, og reglugerð sem sett verði á grundvelli þeirra, taki gildi fyrir áramót, bæði til að tryggja snurðulaus umskipti yfir í nýjar viðmiðanir á fjármálamarkaði og til að forðast óþarfan tvíverknað og hættu á misskilningi varðandi lykilupplýsingaskjöl fyrir almenna fjárfesta.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.