152. löggjafarþing — 11. fundur,  15. des. 2021.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Það er sársaukafullt að lesa tölvupósta, sem streyma til okkar alþingismanna þessa dagana, frá öryrkjum og fátæku fólki sem kvíðir jólum. Póstarnir eru, allir með tölu, ákall um hjálp, ekki bara beiðni um örlitla aðstoð eða lítið viðvik heldur nístandi neyðaróp fólks sem getur ekki framfleytt sér með þeirri hungurlús sem ríkið skammtar þeim. Flestir eru að spyrjast fyrir um þá eingreiðslu sem þeir fengu fyrir jólin í fyrra, þetta voru litlar 50.000 kr., og hvort líkur séu á að stjórnvöld grípi aftur til sama úrræðis. Við í Viðreisn styðjum það eindregið en það gerir ríkisstjórnin hins vegar ekki, a.m.k. ekki hingað til.

Hæstv. fjármálaráðherra kallaði þetta glaðning í fjölmiðlum í gær. Ég held að ástæða sé til að staldra aðeins við þá hugtakanotkun. Þegar börnin okkar fá í skóinn frá jólasveininum þá er óhætt að kalla það glaðning. Litli súkkulaðimolinn á koddanum í hótelherberginu er glaðningur. Sú frumskylda æðsta gæslumanns almannafjár að sjá til þess að fólk svelti ekki og að börn þess svelti ekki er ekki glaðningur heldur einmitt, eins og orðið ber með sér, skylda. Við sem setjum hér lög og reglur og deilum út fjármagni eigum ekki að líta svo á að við séum í hlutverki jólasveinsins og að fjárveitingar úr samneyslunni séu einhvers konar glaðningur. Hlutverk okkar hér byggist á skyldu okkar gagnvart fólki. Við erum ekki einhvers konar veislustjórar eða velgjörðarmenn sem sáldra silfri tilviljunarkennt yfir landslýð.

Hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra verður báðum tíðrætt um uppstokkun á almannatryggingakerfinu. Það er löngu tímabært, enda kerfið allt of flókið. Það er bútasaumur, alsett girðingum og skerðingum sem læsir fólk inni og festir í fátæktargildru. Ég hvet hæstv. ráðherra til að muna að uppstokkun á flóknu kerfi í framtíðinni færir ekki fátæku fólki mat á diskinn fyrir þessi jól. Það vita það allir sem vilja vita að enginn kaupir jólamatinn í dag með veði í loforði ríkisstjórnarinnar um betri tíð.