152. löggjafarþing — 11. fundur,  15. des. 2021.

störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ásókn í auðlindir lands og þjóðar er gömul saga og ný. Nú eru það vindmyllur sem virðast eiga að rísa um víðan völl. Ég hef hugleitt það mikið þegar ég ber það t.d. saman við fiskeldi í fjörðum okkar. Báðir þessir þættir eru auðvitað mikilvægir en ég set spurningarmerki við það hvernig við höldum á málum í upphafi. Hvað varðar fiskeldi voru leyfi gefin út áður en skipulag haf- og strandsvæða var klárað. Nú er mikil ásókn í að setja upp vindmyllur víða. Mig langar bara að hvetja okkur sem hér sitjum til að marka okkur stefnu þar sem náttúruvernd, íbúalýðræði og hagur ríkis og sveita skiptir mestu máli. Hér er rætt um fátækt. Hér er rætt um efnahaginn. Ég held að við getum gert miklu betur þarna og ég kalla eiginlega bara eftir því að þetta verði gert af alvöru og við lærum af reynslu annarra þjóða, að við stökkvum ekki bara af stað og reynum svo að lagfæra og bútasauma eftir á.