152. löggjafarþing — 11. fundur,  15. des. 2021.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla eins og hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir að beina sjónum að legslímuflakki eða endómetríósu. Ég hef þegar lagt fram fyrirspurn á Alþingi til hæstv. heilbrigðisráðherra um sjúkdóminn sem, eins og hv. þingmaður fór yfir áðan, getur valdið sárum verkjum og ófrjósemi og er talið að allt að 10% kvenna þjáist af sjúkdómnum. Einkenni hans er mismunandi, þau geta verið óljós og einstaklingsbundin og því getur greining reynst erfið og greiningartími oftar en ekki mörg ár. Á Landspítalanum starfar þverfaglegt legslímuflakksteymi en samkvæmt Samtökum um endómetríósu getur biðtími eftir viðtali og aðgerðum til að meðhöndla sjúkdóminn verið mjög langur og hann bætist þá ofan á langan greiningartíma. Sjúklingar innan samtakanna hafa undanfarið leitað út fyrir landsteinana til að fá meðhöndlun og enn fleiri eru núna að skoða möguleikann á því. Legslímuflakk getur haft mikil andleg áhrif og leitt til þunglyndis og kvíða. Þegar sjúklingar fá loksins viðeigandi meðhöndlun er skaðinn oft orðinn mikill, bæði líkamlega og andlega. Það er mikið réttindamál fyrir svo stóran hóp sjúklinga að fá rétta greiningu og meðhöndlun við sjúkdómum eins snemma og hægt er. Það er ekki boðlegt að fjöldi sjúklinga bíði árum saman eftir réttri greiningu og þá eftir viðtali og réttri meðhöndlun mánuðum saman. Þeir eru verkjaðir, upplifa sig hjálparlausa og eru jafnvel óvirkir í samfélaginu og á atvinnumarkaði.

Ég vil því nota þetta tækifæri til að hvetja hæstv. heilbrigðisráðherra til dáða. Það er yfirlýst markmið nýrrar ríkisstjórnar að minnka biðtíma eftir heilbrigðisþjónustu og fyrstu embættisfærslur hæstv. ráðherra gefa góða von um framhaldið. Ég leyfi mér því að vonast til þess að hann beiti sér hér fyrir bráðnauðsynlegum úrbótum.