152. löggjafarþing — 11. fundur,  15. des. 2021.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttir lauk ræðu sinni á að segja að það væri yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar að stytta biðlista en svo virðist ekki vera þegar kemur að geðheilbrigðisþjónustu. Það er merki um styrkleika hvers samfélags hvernig það kemur fram við fólk sem þarf á aðstoð að halda, aðstoð vegna sjúkleika eða félagslega erfiðrar stöðu.

Í gær fengum við fregnir af því að Landspítalinn neyðist til að loka heilum tíu legurýmum á geðdeildum sínum vegna manneklu. Herra forseti, það er tíunda hvert pláss. Neyðarástand hefur ríkt í geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi lengi, svo lengi sem elstu menn muna, má segja. Biðlistar eru svo langir, hvort tveggja fyrir börn og fullorðna, að sjálfsvígum fjölgar ár frá ári. Þeir sem eru í sjálfsvígshættu koma að lokuðum dyrum og á annað þúsund börn bíða eftir nauðsynlegri geðheilbrigðisþjónustu.

Herra forseti. Á síðasta ári tóku 46 einstaklingar hér á landi líf sitt og eru það bara þeir sem fá þá skráningu í tiltekinni skrá hjá landlækni. Ef við værum að horfa á viðlíka mannfall í bílslysum, vegna drukknunar eða af völdum Covid væri samfélagið á hliðinni. Það væru allir fjölmiðlar með míkrófóninn í andlitið á heilbrigðisráðherra til að spyrja: Hvernig ætlið þið að bregðast við? Getur verið að fordómar okkar gagnvart þeim sem glíma við geðrænar áskoranir séu svo djúpstæðir að við kippum okkur ekki upp við það neyðarástand sem er í geðheilbrigðiskerfinu?

WHO, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, varaði við þessum erfiðleikum um leið og Covid-faraldurinn kom upp og sagði að við yrðum að bregðast við og að stjórnvöld yrðu að (Forseti hringir.) taka alvarlega þær afleiðingar sem herja á fólk vegna geðrænna áskorana af völdum Covid.