152. löggjafarþing — 11. fundur,  15. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[21:17]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvarið. Ég tel að hver skrifstofa eigi að vera með faglega lík málefni til að nýta þekkingu starfsmanna. Það er gríðarleg þekking í embættismannakerfinu og það er mjög mikilvægt að sú þekking sé á sama stað og þekkingu á sama málefni sé ekki dreift út um allar koppagrundir. Ég tel mikilvægt að loftslagsmálaráðherra sé með loftslagsmálin og sjái einnig um samhæfinguna, að ekki sé verið að taka einhvern ákveðinn þátt úr því, samhæfinguna, og færa til forsætisráðuneytisins. Það tel ég vera mjög mikilvægt.

Ég tel líka mikilvægt, og þetta er kannski annað en tengist þessu smávegis, að starfsmenn í æðstu lögum embættismannakerfisins fái aðeins að njóta sín, séu ekki fastir í ákveðnum málaflokki nánast endalaust, að það sé flutningur starfsmanna þar á milli þannig að þekkingin og reynslan nýtist. Ég tel að það sé miklu stærra mál en að koma með eitt aukaráðuneyti. Þetta þarf miklu meiri tíma og miklu betri skoðun. (Forseti hringir.) Ég sé það bara varðandi nafnabreytinguna, þeir ákváðu að breyta vísindum í háskóla í nafninu á einu ráðuneytinu. Af hverju? (Forseti hringir.) Jú, það passaði eitthvað betur. Ég sé engan sérstakan mun á orðunum vísindi og háskóli, vísindastarfsemi á sér stað í (Forseti hringir.) háskólunum. En ég sé að tíminn er liðinn.

(Forseti (OH): Forseti minnir þingmenn á að virða ræðutíma.)