152. löggjafarþing — 11. fundur,  15. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[22:57]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Já, hvar kviknaði hugmyndin? Hv. þingmaður rifjar upp að hæstv. forsætisráðherra hafi áðan bent á Framsóknarflokkinn í kosningabaráttunni og VG í kosningabaráttunni. Ég hjó eftir því að einhvern tíma í kvöld nefndi ráðherrann líka að hugmyndin með að steypa orkunni saman við umhverfisverndina sé eitthvað sem hafi fæðst á tímum vinstri stjórnarinnar þegar umhverfis- og auðlindaráðuneytið var búið til. En ekkert gæti verið fjær sanni. Ég vil bara rifja upp það sem ég las eftir þáverandi hæstv. umhverfisráðherra, með leyfi forseta:

„Að mínu mati er það grundvallarþáttur í velferð þjóðarinnar að rannsóknir á auðlindum og ráðgjöf um nýtingu þeirra séu í skjóli frá nýtingarsjónarmiðum.“

Þetta snerist nefnilega um dálítið stór hagsmunamál. Þetta snerist um það að umhverfis- og auðlindaráðuneytið yrði ráðuneyti komandi kynslóðar sjálfbærrar þróunar. Hvað er það orðið? Það er orðið draumaráðuneyti Kárahnjúkaflokkanna í ríkisstjórninni. Þetta er Botnsvirkjunarráðuneytið. Það er búið að losa ráðuneytið við allt sem gæti truflað öll umhverfismálin, sem gæti truflað ráðherrann frá því grunnverkefni sínu. Hann þarf ekkert að spá í skipulagsmálin eða húsnæðismálin eða öll þessi atriði sem eru samt lykilatriði í t.d. baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Á Íslandi er þriðjungur samfélagslosunar vegna bílaumferðar. Það þarf bara eitt atriði til að laga það. Það er skipulagsmál. En það er ekki lengur á forsendum umhverfisins heldur uppbyggingar innviða í innviðaráðuneytinu sem á einhverja þá gráustu sögu sem nokkurt ráðuneyti gæti átt. Ég held að við höfum sjaldan upplifað jafn mikið bakslag í grænu málunum og við myndun þessarar ríkisstjórnar.