152. löggjafarþing — 11. fundur,  15. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[23:09]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Þetta er dálítið góður brandari, þessi tillaga. Ég reyni að byrja einhvers staðar, byrja þar sem síðustu ræðumenn enduðu; fjölskipað stjórnvald og vandamál þess með tilliti til þess hvernig stjórnarskráin er. Í þessari tillögu er fjallað um ráðuneyti sem verður að mestu leyti óbreytt í skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. „Að mestu leyti óbreytt“ er mjög áhugavert orðalag, því að hvað er þá að breytast? Ég hef ekki hugmynd um það. Það er ekki útskýrt neitt nánar. Er það nákvæmlega eins eða að mestu leyti óbreytt? Hvað er í gangi? Þetta er svo skrýtið. En þetta er fjármála- og efnahagsráðuneytið. Ég hef talað um það hér fyrr í dag í umræðu um fjáraukalög að fjármála- og efnahagsráðuneytið er ekkert að fara eftir þessu stjórnarskrárákvæði um fjölskipað stjórnvald, því að fjármála- og efnahagsráðuneytið segir velferðarráðuneytinu, félagsmálaráðuneytinu, heilbrigðisráðuneytinu: Þið fáið svona mikinn pening. Við erum fjármálaráðuneytið og við ráðum öllum fjármálunum. En samt er ábyrgð verkefnanna á herðum fagráðuneytanna. Reksturinn og utanumhaldið varðandi Landspítalann, skólana og þess háttar er hjá heilbrigðisráðuneyti og menntamálaráðuneyti og þau bera ábyrgð á þeim verkefnum og þar af leiðandi þeim fjárheimildum sem því fylgja. En samt fær fjármálaráðuneytið að segja: Nei, þið fáið bara svona mikinn pening til að reka Landspítalann, gjörið svo vel. Þurfið þið meira? Nei, okkur er alveg sama um það. Við erum nefnilega ekki fjölskipað stjórnvald. En bíddu, átti það ekki að vera þannig að þið skiptið ykkur ekki af öðrum málaflokkum?

Þetta er fáránlegt, gjörsamlega fáránlegt. Þetta er einfaldlega þannig, eins og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson lýsti hérna áðan, að það er verið að rífa í sundur þessi stóru ráðuneyti sem var verið að reyna að byggja upp. Ég held að það sé af því að þessir stjórnarflokkar, stjórnlyndu flokkar, eru einfaldlega hræddir við sterka faglega stjórnsýslu, vilja veika stjórnsýslu, vilja rífa þetta í tætlur til þess að geðþóttaákvörðunarvald ráðherra sé yfir öllu, ekki faglegheit.

Af hverju voru ekki breytingar á síðasta kjörtímabili ef það var svo augljóst að það þurfti að gera ýmislegt skilvirkara? Af hverju ekki að byrja þá þegar ráðherrann sá að það þyrfti, hvernig er þetta orðað hérna, að fella ósýnilega múra stofnanamenningar til þess að geta stuðlað að samvinnu, samráði og samhæfingu? Af hverju sáum við það ekki á síðasta kjörtímabili að ráðherrar kæmu hingað, ráðherrar sem eru fulltrúar þingsins í framkvæmdarvaldinu, til þingsins og segðu: Við sjáum hérna múra á milli sem gera það að verkum að við getum ekki náð árangri í því að byggja upp almennilegt húsnæðiskerfi á Íslandi og við viljum lemja þessa helvítis múra niður og gera það með ykkar hjálp. Nei, það þurfti kosningar þar sem ekki var minnst einu orði á þetta, ekki einu orði. Við lendum í einhvers konar súrrealisma hérna eftir kosningar eftir tveggja mánaða samtal um eitthvað sem enginn veit hvað var og þetta er dregið upp úr hattinum. Meðal annars matvælaráðuneyti. Hvaðan kom það? Það er svo æðisleg útskýringin á matvælaráðuneytinu, matvælastefna o.s.frv., allt í lagi, en svo fer meiri hlutinn af útskýringunni í að skýra af hverju skógræktin fer inn í matvælaráðuneytð. Ég veit ekki hver borðar tré. Það er ekki ég. Þetta er alveg fáránlegt. Ég næ varla að fara yfir þetta.

Eina kosningamálið kannski var innviðaráðuneyti, það var það eina sem var talað um fyrir kosningar, var rosalegt kosningamál hjá Framsóknarflokknum. Gott og vel, það má alveg skipuleggja og ná einhverri hagkvæmni þar, kannski ekki þann kostnað sem fjallað var um hér þegar skipulagið valtar yfir umhverfissjónarmiðin. Það var ítrekað talað um það á síðasta kjörtímabili hvernig þetta væri allt svo rosalega flókið, það væri ekki hægt að skipuleggja neitt af því að það þyrfti alltaf að fara í umhverfismat. Það flókna við það var að þeir gleymdu bara algerlega að fara í umhverfismat þegar verið var að huga að skipulagsmálum. Svona eftiráhugsun: Æ, já, andskotinn, við gleymdum umhverfismatinu. Þess vegna var náttúrlega kvartað, kvartanir sendar til kærunefndar: Fyrirgefið, stjórnsýslan átti að fara í umhverfismat en gleymdi því, gætum við vinsamlegast lagað það. Þá var þetta svo mikið skipulagslegt vesen af því að þau gleymdu að gera það sem átti að gera. Rosalega mikið af svona fúski í gangi.

Síðasti brandarinn hérna, virðulegur forseti, svona „punchline“, brandarinn í pylsuendanum eða eitthvað svoleiðis, er um kostnaðinn. Með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að endanlegt mat á kostnaði vegna skipulagsbreytinganna komi fram við tillögugerð við 2. og eftir atvikum 3. umr. á Alþingi um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2022.“

Þetta er stórkostlegt. Þetta er ellefu blaðsíðna brandari fyrir mig í fjárlaganefnd. Ég, sem er í fjárlaganefnd, myndi vilja leggja til að fjárlaganefnd yrði lögð niður. Af hverju? Af því að það eru í rauninni fagnefndirnar, alveg eins og ég lýsti áðan, sem eiga að vita hvernig er verið að fjármagna þau verkefni sem nefndirnar sjá um. Þetta er líka þeirra hlutverk og þær þurfa að vera innviklaðar í það hvað verkefnin kosta. Allar nefndir eiga að vera fjárlaganefndir, hver ein og einasta á sínu málefnasviði.

Þetta er auðvitað stórkostleg tillaga til þingsályktunar og ég legg til að við tökum bara fram endurvinnslutunnuna, pappírsendurvinnslutunnuna og látum þetta detta þangað.