152. löggjafarþing — 11. fundur,  15. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[23:28]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka kærlega fyrir þetta svar. Þá að öðru sem nefnt var í ræðu hv. þingmanns áðan. Það var þetta með, ef ég skildi inntakið rétt, að þessi breyting væri í raun og veru gerð, vitandi vits, til að veikja ráðuneytin, minnka skilvirkni þeirra, til að auka einhvers konar ráðherraræði, geðþóttaákvarðanir, og að niðurstaðan úr þessu væri í raun og veru bara veikari stjórnun. Ég er ekkert viss um að ég deili þeirri skoðun að það sé endilega hugarfarið á bak við þetta. Ég held að skýringin á þessu sé frekar, eins og ég fór yfir, að menn voru bara í pínulitlum vandræðum með að leysa það hvernig skipta ætti stólum eftir kosningaúrslitin. Ég myndi gjarnan vilja, ef ég mætti, beina þeirri fyrirspurn til hv. þingmanns hvort hann væri til í að útskýra þetta aðeins betur, rökstyðja það aðeins meira.