152. löggjafarþing — 11. fundur,  15. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[23:29]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Með glöðu geði. Ég geri fastlega ráð fyrir því að einhver skilvirkniaukning verði í einstaka málaflokkum, t.d. hvað varðar innviðina, skipulagsmálin o.s.frv. Sérstök áhersla er á það og við þekkjum alveg þá orðræðu. Í kosningunum var í rauninni kosið um það. En þetta er eins og að stokka spilastokk. Þú ert kannski einhver galdramaður og getur stjórnað því aðeins hvernig spilastokkurinn stokkast. Þú getur raðað öllum spöðunum saman, voðalega sniðugt, en allt hitt er í rugli af því að þú ert bara að einbeita þér að því hvernig þú kemur skipulagsmálunum í gegn og ert búinn að raða því. Hitt er bara rústir. Þú hendir sem sagt spilunum upp í loftið og nærð spaðaásnum en þú verður að taka til eftir afganginn. Það er ekki hugsað um það. Og það er svo greinilega gegnumgangandi í öllum þessum skýringum, eins og þegar er talað um bland í poka-ráðuneytið. Það er það sem gerir stjórnsýsluna síðan veika, þegar það eru smáar einingar sem geta ekki talað saman, eins og hafa komið dæmi um hér í umræðunni. (Forseti hringir.) Það býr til þessa ósýnilegu veggi sem er talað um, ósýnilegu múra stofnanamenningar. Verið er að búa þá til með þessu.(Forseti hringir.) Það er kvartað undan því að þeir séu til staðar, að þeir séu vandamálið, en fleiri ráðuneyti og fleiri skrifstofur (Forseti hringir.) búa til fleiri svoleiðis ósýnilega veggi.