152. löggjafarþing — 11. fundur,  15. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[23:35]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er gott að heyra að hv. þingmaður tekur undir að þetta sé meðvitaður rasjónalismi. En ég vil nota tækifærið núna til að benda á að það er alveg augljóst mál að hæstv. forsætisráðherra er hér að uppfylla skyldu 2. gr. laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, það er það sem er verið að gera. Ég tel að þetta sé innantómt ákvæði og ég skora á forsætisráðherra Íslands að beita sér fyrir því að lög um Stjórnarráð Íslands verði endurskoðuð, sérstaklega 2. gr. Ég tel að ákvæðið sé innantómt að því leyti að það er búið að ákveða fjölda og heiti ráðuneytanna í forsetaúrskurðunum sem þegar liggja fyrir. Svo er komið og óskað eftir stuðningi Alþingis við fyrirhugaða breytingu á fjöldanum, á atriðum sem er búið að ákveða í forsetaúrskurðinum. Þetta er bara tvítekning. Ég tel að það sé mikilvægt að skoða þetta, að við eigum ekki að sitja uppi með svona bastarð, hvorki í málsmeðferðinni né efnislega.