152. löggjafarþing — 12. fundur,  16. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[14:53]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Það voru fróðlegar umræður hér í gærkvöldi um þetta mál sem vöktu margar spurningar og gáfu tilefni til frekari íhugunar um fyrirliggjandi þingsályktunartillögu. Það var áhugavert að kynna sér að skógrækt og landgræðsla séu undir matvælaráðuneyti og ferðamál séu undir ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðuneyti. Ég vil vekja athygli á forsetaúrskurði um skiptingu starfa ráðherra sem er þetta skjal. Búið er að ákveða fjölda ráðuneyta og þau eru 12. Það eru 12 ráðherrar og heiti ráðherranna kemur þar fram. Þar er líka heiti ráðuneytanna. Spurningin er: Hvað er ráðuneyti? Jú, það er skrifstofa ráðherra. Og að bera það síðan upp í þingsályktunartillögu hvað heiti ráðherra eigi að vera þegar búið er að ákveða það í forsetaúrskurði, er mjög sérstakt svo ekki sé meira sagt. Ég tel að þessi þingsályktunartillaga, sem er gerð með vísan til 2. gr. laga um Stjórnarráð Íslands, standist einfaldlega ekki aðrar greinar. Ég skal segja af hverju. Ástæðan fyrir því er að í 2. gr. segir, með leyfi forseta:

„Ákveða skal fjölda ráðuneyta og heiti þeirra með forsetaúrskurði, sbr. 15. gr. stjórnarskrárinnar, samkvæmt tillögu forsætisráðherra. Tillagan skal lögð fyrir Alþingi í formi þingsályktunartillögu sem komi þegar til umræðu og afgreiðslu áður en forsetaúrskurður er gefinn út.“

Hérna fjöllum við um þriðja forsetaúrskurðinn sem ég var að spyrja um í gær. Það eru þrír forsetaúrskurðir sem eiga að leiða til breytinga á skipan ráðuneyta. Orðalagið í þessari tillögu til þingsályktunar er þannig að það er ekki tillaga til forsetaúrskurðar eins og lögin gera ráð fyrir. 2. gr. er algerlega skýr um að tillaga forsætisráðherra til forsetaúrskurðar sé skjalið sem á að leggja fyrir Alþingi, ekki annað skjal, svo það sé algjörlega klárt mál. Það á ekki að vera skjalið sem segir að Alþingi álykti, með vísan til 2. gr. laga um Stjórnarráð Íslands, að styðja fyrirhugaða breytingu á fjölda og heitum ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands sem felur í sér o.s.frv., þar sem talin eru upp gömlu heiti ráðuneytanna og í staðinn komi ákveðinn fjöldi annarra ráðuneyta. Það er ekki í samræmi við 2. gr. laganna, virðulegi forseti.

Það sem forsætisráðherra á að leggja fram er tillaga forsætisráðherra til forseta Íslands um forsetaúrskurðinn. Það er sú tillaga sem á að koma fram í þingsályktunartillögunni. Það segir í 2. gr. Þessi þingsályktunartillaga stenst ekki 2. gr., svo það sé algerlega kristaltært. Ég hef skoðað fyrri dæmi, ég veit að það hefur verið gert áður en það breytir því ekki að tillaga forsætisráðherra á að vera sú tillaga sem hann leggur fyrir forseta til undirritunar. Það er sú tillaga sem á að koma fyrir Alþingi og það er ekki verið að gera það hér. Það að koma með tillögu til þingsályktunar þar sem Alþingi ályktar að styðja fyrirhugaða breytingu er ekki það að ákveða fjölda ráðuneyta og heiti þeirra. Við erum einungis með fimm ráðuneyti sem eru talin upp í þingsályktunartillögunni sem verða síðan gerð að sjö ráðuneytum. Allur listinn þarf að koma, öll 12 ráðuneytin, fjöldi allra ráðuneytanna og heiti allra 12 ráðuneytanna. Það er það sem á að standa í þingsályktunartillögunni. Ég veit að það er hægt að redda þessu. Þetta hefur greinilega verið redding síðast en það var ekki samræmi við réttan lestur og orðanna hljóðan í 2. gr. laga um Stjórnarráð Íslands. Ég tel að það sé alveg efni fyrir lagaskrifstofu forsætisráðuneytisins að skoða það. Ég held að ekki sé hægt að óska eftir minnisblaði héðan en það væri mjög fróðlegt að sjá lagatúlkun þeirra á formi þessarar þingsályktunartillögu svo að það liggi fyrir.

Að öðru leyti varðandi þessa þingsályktunartillögu — ég er búinn að fjalla um efnið, ég gerði það í gær í fyrri ræðu minni — þá er stjórnarskráin algerlega skýr. Í 15. gr. segir að forsetinn skipi ráðherra og veiti þeim lausn. Hann ákveði tölu þeirra og skipti með þeim störfum. Það segir ekki að Alþingi eigi að gera það. Það gerir það ekki. En núna, svo ég taki bara orðanna hljóðan, (Forseti hringir.) segir að við eigum að ákveða breytingu á fjölda og heitum ráðuneytanna. Ég veit að 2. gr. er þarna og lögin eru þarna og ég tel að 2. gr. laga um Stjórnarráð Íslands standist ekki stjórnarskrána. Þessi lög eru alger bastarður, (Forseti hringir.) lagalegur bastarður sem þyrfti að fara í endurskoðun sem allra fyrst.