152. löggjafarþing — 12. fundur,  16. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[15:22]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Þetta er risamál sem við erum að ræða hér, uppstokkun á Stjórnarráðinu, nokkuð óvænt uppstokkun. Ég vil strax draga fram að ég tel eðlilegt að ríkisstjórn hvers tíma hafi ákveðið svigrúm og ákveðin tækifæri og ákveðin tól til að stokka upp til þess að undirstrika áherslur sínar, til að fá málum frekar framgengt sem til að mynda standa í stjórnarsáttmálanum. Eftir árangur stjórnarsáttmála eða framkvæmda á síðasta kjörtímabili tel ég ekki úr vegi að ríkisstjórnin hafi þá skoðað sinn gang og spurt sig: Hvernig getum við náð fram betri stjórnsýslu þannig að stjórnarsáttmálinn hafi einhver áhrif og hafi eitthvert gildi en sé ekki bara falleg orð á blaði? Þannig að það sé strax sagt. Auðvitað er það svolítið kaldhæðnislegt að einu ráðuneytin sem eru nokkurn veginn óhreyfð eða sem bætist við eru ráðuneyti þeirra sem formennirnir gegna. Pínu kaldhæðnislegt en segir samt ákveðna sögu. Allir aðrir ráðherrar skipta um stað eða ráðuneytin fara í gagngera uppstokkun.

Mér finnst þegar ég les greinargerðina — ég hélt eftir allan þennan tíma frá kosningum, allt þetta möndl í hinum ágæta ráðherrabústað, að það yrði meira bit í greinargerðinni, meiri framtíðarsýn, meiri festa í þessum annars fallegu orðum, eitthvað sem veitti okkur haldreipi um að jú víst, þetta yrði til farsældar fyrir okkur sem stólum á að stjórnsýslan sé skilvirk, gegnsæ, skiljanleg og ekki síst öflug. Við lærðum það, og það hefur réttilega verið dregið fram eftir að farið var í naflaskoðun eftir hrunið, og það stendur m.a. í rannsóknarskýrslu Alþingis, sem við eigum að hlusta vel á, að hluti af þessu öllu saman var að ráðuneytin og stjórnsýslan voru ekki nægilega í stakk búin til að mæta þeim tímum sem voru þá. Það er ekkert öðruvísi í dag. Við þurfum að hafa ráðuneytin okkar sterk. Við þurfum að hafa umgjörðina þannig að við getum þróað innan ráðuneytanna þekkingu, færni, skilvirkni, allt þetta sem nútímastjórnsýsla krefst. Það hefur satt best að segja ekki alveg tekist.

Ég vil þó byrja á því sem ég er nokkuð ánægð með og það er breytingin á loftslagsráðuneytinu, loftslags- og orkumálaráðuneytinu. Ég bind vonir við að einmitt þessi skref verði til þess að það hreyfist eitthvað í þeim málum, verði til þess hér verði alvöruumhverfisvernd, alvöruloftslagsstefna, því að það verður að segjast eins og er að því hefur ekki endilega miðað mjög hratt áfram eða mikið í þá veru, hvað þá í virkjunarmálum. Það eru náttúrlega mál sem eru algerlega óleyst milli stjórnarflokkanna, algerlega óleyst. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig það verður, sérstaklega þegar þetta er komið núna undir einn ráðherra, Sjálfstæðisráðherra, sem mun væntanlega fylgja því svolítið eftir hvernig við förum í nauðsynlegar virkjanir til lengri og skemmri tíma litið fyrir orkuskipti o.fl. Þannig að ég tel það vera jákvætt.

Ég tel líka margt jákvætt varðandi innviðaráðuneytið, að setja skipulagsvaldið á nokkurn veginn sama stað, bæta við. En hins vegar skildi ég ekki af hverju verið var að taka fjarskiptamálin þaðan. Ég hef ekki enn þá náð því. Mér finnst það ekki hafa verið skynsamlegt skref af því að fjarskiptin eru hluti af innviðauppbyggingunni og heildstæðri nálgun. Síðan er hitt, og við verðum bara að segja hlutina eins og þeir eru: Það er auðvitað kaldhæðnislegt að fyrsta skref ríkisstjórnar, gott og vel, hún er undir forystu Vinstri grænna, sem Sjálfstæðisflokkurinn situr í, sem ætti alla jafna að vera vinur skattgreiðenda, en hann er búin að sýna það og sanna á undanförnum árum og misserum að svo er nú aldeilis ekki, sé ekki bara að fjölga ráðherrum heldur fjölga ríkisstarfsmönnum, þenja báknið þannig að allt sem var sagt áður; stöðugleiki, hagkvæmni, aðhald í ríkisrekstri, er bara fokið út í veður og vind. Auðvitað er það kaldhæðnislegt.

Svo hef ég áhyggjur af því að stjórnsýslueiningarnar séu ekki nægilega burðugar. Við vitum að hluti af því að verið er að fjölga ráðuneytum er að Vinstri græn, þrátt fyrir nokkuð mikinn ósigur, þau minnka um 5%, eitt mesta tapið í kosningunum var þar, gáfu ekki eftir eitt ráðuneyti. Það þýddi ákveðinn vanda. Framsókn var sigurvegari kosninganna og eðlilega þurfti hún að fá sitt, ekki bara í útþöndu ráðuneyti formannsins. Einn Sjálfstæðismaður sagði við mig að það þyrfti að skapa svona míní-landstjóraembætti fyrir formann Framsóknar, en gott og vel, það má að mörgu leyti skilja það. Ég undirstrika að þær breytingar eru ekki óskynsamlegar. En Framsókn þurfti fjórða ráðuneytið og fyrst Vinstri græn voru ekki tilbúin að fækka hjá sér þá fór allur þessi kapall af stað. Það er stóri galdurinn við þessa slöppu og frekar lélegu uppstokkun á ráðuneytum, uppstokkun sem þarf oft að vera, en þessi er ekki til þess að auka trúverðugleika á stjórnsýslunni næstu misseri.

Fyrir utan það er kaldhæðnislegt að hlusta á það sem ég hef heyrt hjá tveimur ráðherrum Sjálfstæðisflokksins, að nú sé um alvörukerfisbreytingar að ræða. Sem sagt, fyrsta skrefið sem Sjálfstæðisflokkurinn tekur er að fjölga ráðherrum, auka ríkisútgjöld um hundruð milljóna króna. Þá er ávísanaheftið galopið. En þegar verið er að tala um t.d. óskerta desemberuppbót til öryrkja, eingreiðslu til öryrkja núna fyrir jólin, þá er ekki hægt að verða strax við því. Það er ekki hægt að verða við því að niðurgreiða sálfræðiþjónustu og tala tæpitungulaust um alvörukerfisbreytingar um að viðurkenna andlega líðan, að hún sé jafngild þeirra líkamlegu. Nei, það er kerfisbreyting sem ekki er hægt að vinna að. Eigum við að tala um auðlindir þjóðarinnar, að þjóðin fái sanngjarnt verð fyrir aðganginn að auðlindinni, hvort sem það er raforkan eða sjávarauðlindin? Það er alvörukerfisbreyting. Eða að við sæjum fram á landbúnaðarstefnu sem væri miklu grænni, sem yrði losuð úr höftum og ofurvaldi milliliða og færð til nútímalegs horfs í þágu umhverfis, í þágu neytenda, í þágu bænda? Nei, slíkar kerfisbreytingar eru ekkert á dagskrá. Nei, alvörukerfisbreytingar í huga Sjálfstæðisflokksins, a.m.k. tveggja ráðherra þeirra, og ég heyrði það líka meðal nýrra þingmanna hér, er að þenja út báknið, fjölga ráðherrum. Það eru alvörukerfisbreytingar í huga Sjálfstæðisflokksins. Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort ég á að hlæja eða gráta yfir umskiptunum á þessum gamalgróna flokki. En þetta er staðreynd.

Síðan er eitt til viðbótar, og ég vona að ráðherra geti farið betur yfir það í ræðu sinni á eftir, þ.e. ákveðin sértæk málefni. Til dæmis: Er það rétt, sem mér sýnist vera og allt bendir til, varðandi Hús íslenskunnar, sem við erum í ár og áratugi búin að berjast fyrir, að allt fræðastarfið, menningararfurinn, rannsóknirnar og þekkingin fari undir eitt þak í glæsilegu Húsi íslenskunnar, að verið sé að kljúfa þá starfsemi í raun í tvennt? Að einn ráðherra muni stýra vísindastarfinu sem þar fer fram, rannsóknum og miðlun þekkingar, og annar muni þá stýra vernd sagnaarfsins og menningarinnar, sem eru kjarninn í því sem gerir okkur að Íslendingum og er okkur algerlega ómetanlegt? Ég hef áhyggjur af þessu. Ég vona að hæstv. ráðherra geti sannfært mig um að það sé farsælt skref eftir alla þessa áratugi, að sameina þessa starfsemi upp á skilvirkni, upp á samvinnu, upp á skilning, upp á það að nýta þekkinguna sem er á þessum fræðasviðum og innan menningararfsins. Ég vona að þessi uppskipting verði ekki til þess að draga úr mikilvægi þeirrar starfsemi, þeirrar gríðarlega mikilvægu starfsemi sem verður innan Húss íslenskunnar. Ég hef ákveðnar áhyggjur af því.

Mér þætti líka gott ef ráðherra kæmi inn á í ræðu umboðsmann barna. Það er fullkomlega óeðlilegt að setja umboðsmann barna inn í mennta- og barnamálaráðuneytið, af því að ráðherrar stjórnarflokkanna togast á um verkefni, af því að við erum einfaldlega með of lítil ráðuneyti og þá þarf aðeins að fita þau sem frekar lítil eru. Umboðsmaður barna þarf að vera hlutlaus. Hann þarf í raun að vera með armslengdarprinsippið gagnvart eftirliti með hagsmunum barna. Ég hef áhyggjur af þessu. Ég hefði viljað sjá það áfram í forsætisráðuneytinu eða öðru ráðuneyti og ég vona að hæstv. forsætisráðherra komi inn á þetta.

Eins og ég segi munum við fara mjög vel yfir þessa tillögu. Ég verð að segja að það er eitt og annað gott í henni sem hægt er að taka undir, annað ekki, en annað veldur mér verulegum áhyggjum. (Forseti hringir.) Það er ekki gott þegar breytingar ráðast fyrst og fremst af persónum og leikendum (Forseti hringir.) en ekki af því hvernig við höfum greint, rýnt hlutina, rýnt okkur til niðurstöðu og gagns. Það er ekki að sjá í þessum breytingum, (Forseti hringir.) það er ekki að sjá í þessari þingsályktunartillögu eða greinargerð sem henni fylgir. Ég vil hvetja þingnefndina sem fær þetta til sín að taka til hendinni og vinna þetta betur en verið hefur.

(Forseti (LínS): Forseti minnir á tímamörk.)