152. löggjafarþing — 12. fundur,  16. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[15:33]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Mér finnst mestu máli skipta hér, þótt það sé þannig að í öllum þeim ótal mörgu breytingum sem eru að verða sé hægt að finna fínar breytingar inn á milli, að það var engin knýjandi þörf fyrir því að fara í þennan leiðangur, og það held ég að við vitum öll sem störfum á þessum vinnustað. Það var ekkert sérstakt sem kallaði á það að taka allt Stjórnarráðið nánast bara eins og púsluspil, henda því upp og sjá hvert púslin féllu á borðið og raða síðan í samræmi við það. Mér hefur fundist umhugsunarvert og sérstakt, vegna þess að það er engin knýjandi þörf, að nýta þessar átta vikur sem liðu frá haustkosningum og þar til þing kom saman í að brjóta upp ráðuneyti, fjölga ráðuneytum, fjölga ráðherrum sem sannarlega var engin þörf á hér á landi, án þess að það séu nein merki þess að þessar breytingar þjóni þörfum almennings. Það hlýtur að gilda um ráðuneytin eins og um allar aðrar stofnanir í samfélaginu að þau eiga fyrst og fremst að þjóna því hlutverki að sinna sínum verkefnum vel í þágu almennings en ekki stjórnmálaflokkanna sem þar sitja í það og það skiptið. Mér finnst líka skipta máli í þessu samhengi tal um stöðugleika. Við tölum um efnahagslegan stöðugleika og við tölum um pólitískan stöðugleika. Þessar breytingar eiga að taka gildi í febrúar. Við kusum í september og við taka ævintýralega langar stjórnarmyndunarviðræður. Ný ríkisstjórn fer af stað í desember. Þessar breytingar eiga að taka gildi í febrúar sem þýðir að þetta nýja módel verður farið að malla af stað með vorinu. Þarna mun tapast ofboðslega mikill og dýrmætur tími innan ráðuneytanna. Við vitum það, ef maður horfir á þetta bara út frá breytingastjórnun, að svona miklar breytingar, sem í ofanálag eru kynntar og unnar án nokkurs samráðs við starfsfólkið í ráðuneytunum, munu gera það að verkum að það verður mikið vinnutap innan ráðuneytanna. Ég staldra við þann punkt.

Síðan hlýtur það að teljast óábyrgt að leggja upp með breytingar eins og þær sem hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt að muni kosta einhver hundruð milljónir króna. Það treystir hann sér til að fullyrða. Hins vegar liggja engar kostnaðargreiningar fyrir, ekki frekar en að það liggi fyrir greiningar á þörf. Þá má gefa sér að það lögmál gildi að tölurnar verði nú hærri en þær fyrstu sem heyrast í samtalinu. Þetta hlýtur að teljast óábyrgt á tímum eins og þessum þegar við erum að glíma við þungar efnahagslegar afleiðingar heimsfaraldurs að ríkið sé að fara svona með fjármuni almennings. Og þá leiðir maður auðvitað hugann að því að þessi ríkisstjórn hefur reyndar farið þannig með fjármuni almennings að ríkissjóður var orðinn ósjálfbær fyrir heimsfaraldur. Þannig var nú meðferð á fjármunum skattgreiðenda fyrir heimsfaraldur. Meira að segja núna þegar við erum að glíma við þungar efnahagslegar afleiðingar heldur sú veisla áfram.

Ég nefndi það í þingsal fyrr í dag og beindi þeim orðum mínum sérstaklega til ráðherra og þingmanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, þegar við vorum að ræða það hversu lítið heyrðist í stjórnarliðum í umræðunni um þetta mál, hvort það gæti virkilega verið að í þessum stjórnmálaflokkum tveimur, stjórnarflokkum, Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki, sé enginn þingmaður sem treystir sér til þess að taka samtalið um það hvort það sé ábyrg meðferð fjármuna að vinna með þessum hætti. Að taka þá ákvörðun, án þess að það sé nokkur sérstök þörf á því, að fjölga ráðherrum, að jafn fámennt ríki og Ísland sé komið með allan þennan fjölda ráðherra þannig að nánast þriðji hver stjórnarliði sé ráðherra, finnst mér sérstakt, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Af því að það hefur nú komið beint og óbeint fram í ummælum, m.a. hæstv. forsætisráðherra, að þessi vinna hafi m.a. hafist vegna þess hversu mikill tími gafst til vegna talningarinnar í Norðvesturkjördæmi og öllu því sem henni fylgdi, þá höfum við verið að grínast með það hérna, nokkrir stjórnarandstöðuþingmenn, að þá sé það þannig að formenn stjórnarflokkanna þriggja hafi setið í Ráðherrabústaðnum og kannski leiðst bara svo mikið að þau fóru í það að sprengja upp Stjórnarráðið og fjölga ráðherrastólum. Ég gat alla vega skilið orð hæstv. forsætisráðherra á þannig einhverjum tímapunkti að tíminn hafi einfaldlega verið svo mikill að menn fóru í það að pota í ráðuneyti, plokka þau í sundur og fjölga þeim. Ég sakna þess og ég hef hvergi heyrt, hvorki hjá hæstv. forsætisráðherra né hæstv. fjármálaráðherra, hver hin knýjandi þörf var. Þau hafa talað um einhver óskilgreind sóknarfæri sem breytingar almennt séð geti haft í för með sér og það er gott og vel. En það er ekki þannig að það að breyta bara til að breyta leiði til betri niðurstöðu.

Við sjáum það líka að þarna er verið að para saman málaflokka sem blasir alls ekkert við að eigi heima saman. Eitt finnst mér t.d. sérstakt og það er sambúð menningar og ferðaþjónustu í einu ráðuneyti. Helstu rökin fyrir þeirri sambúð er að þarna séu tvær atvinnugreinar sem báðar hafi orðið fyrir þungu höggi vegna heimsfaraldurs. Engin önnur tengsl. Óbeint felst í þessari röksemdafærslu að við munum búa við sóttvarnatakmarkanir í heilt kjörtímabil til viðbótar fyrst verið er að stofna ráðuneyti í kringum þær afleiðingar. Það er margt svona sem vekur athygli. Barnamálaráðherra, sem starfar án þess að hafa nokkuð af verkfærakistu félagsmálaráðuneytis, er með grunnskólana og hann er með barnamálin, en öll þau úrræði sem hann talaði um á síðasta kjörtímabili eru áfram í félagsmálaráðuneytinu. Barnamálaráðherra situr eftir með titilinn, ef ég skil það rétt, en án allra verkfæra til að beita sér fyrir þeirri pólitík sem hann talaði fyrir. Ég vona að þetta sé rangt hjá mér en ég hef ekki séð nein merki þess að svo sé.

Stóra málið er punkturinn sem ég opnaði á; það var engin knýjandi þörf fyrir almenning á því að fara í þetta. Þetta er gríðarlega kostnaðarsamt. Við höfum einhverjar grófar tölur sem hæstv. fjármálaráðherra hefur nefnt í því samhengi og við getum gefið okkur að þetta mun kosta meira. Við getum gefið okkur að þetta framkallar ævintýralegt vinnutap í ráðuneytunum með öllu þessu róti og raski og óvissu sem fylgir. Haustkosningar, langar stjórnarmyndunarviðræður, breytingar sem eiga að taka gildi í febrúar — þetta mun þýða að ráðuneytin verða í hægagangi fram á vor. Það er afleiðingin. Það er ekkert sérstakt sóknarfæri í því þó að hæstv. forsætisráðherra segi annað.