152. löggjafarþing — 12. fundur,  16. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[15:43]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Mig langar í seinni ræðu minni um þetta mál er snýr að verkefnaskipan Stjórnarráðsins að koma inn á afleidd áhrif málsins hingað inn í þingið. Nú er nýbúið að skipa þingmönnum til sætis í nefndum þingsins og það hlýtur að verða afleitt af þeirri aðgerð, gangi hún í gegn með þeim hætti sem nú liggur fyrir, að einhver verkefnatilfærsla verði á milli þingnefnda. Ef komið hefur verið inn á þetta í fyrri ræðum hefur það farið fram hjá mér. En af því að hæstv. forsætisráðherra situr hér í salnum og hlustar á, og það ber að þakka, þá væri áhugavert að heyra með hvaða hætti hefur verið horft til þess að þessi mál verði tekin áfram, þ.e. hvað skipulag nefndastarfa í þinginu varðar.

Á síðasta kjörtímabili voru mannvirkjamál flutt til með þeim hætti að þau fóru til velferðarnefndar. Með fullri virðingu fyrir því góða fólki sem sat í velferðarnefnd var það að mínu mati mikið stílbrot og einhvern veginn fór ekki sérstaklega vel á því að mannvirkjamál væru komin inn til velferðarnefndar sem hafði nóg fyrir á sinni könnu en tekin frá umhverfis- og samgöngunefnd og það gert í tengslum við flutning verkefna á milli ráðuneyta á miðju kjörtímabili. Þannig að ef hæstv. forsætisráðherra kemur í lokaræðu eða andsvar, eftir atvikum, við lok þessarar umræðu væri áhugavert að heyra með hvaða hætti hæstv. ráðherra sér fyrir sér að áhrifin yfirfærist á störf þingsins og nefndir þingsins því að þetta er mál sem skiptir verulegu máli.

Það er auðvitað þannig að ef tækifæri er til slíks velja þingmenn sér þingnefndir að einhverju marki út frá áhugasviðum og sérþekkingu. Miðað við það í fyrsta lagi hversu lítið almennir þingmenn stjórnarflokkanna hafa tekið þátt í umræðunni, og að mér sýnist bara hér um bil hvergi tjáð sig um þetta að nokkru marki, ég hef ekki séð stafkrók eftir neinn stjórnarliða utan ráðherrahópsins um þessar breytingar, hvort þingmenn stjórnarflokkanna hafi mögulega haft eitthvað betri upplýsingar um það hvernig verk myndu skipast í nefndum þingsins en við stjórnarandstæðingarnir þegar val nefnda átti sér stað. Í nefndastarfinu skiptir nefnilega bæði máli að það sé einhver samfella og samtenging og það sé lógískt samhengi verkefnaflokka sem hver nefnd fjallar um. Það er ekki nauðsynlegt, það mun allt ganga þó að það sé ekki raunin, en allt sem snýr að vinnu nefndar, eðlilegu flæði og skilningi á samhengi hlutanna verður miklu betra ef það tekst alltaf að halda málum á því róli.

Í því samhengi vil ég minna á athugasemdir mínar í fyrri ræðu minni í gær þar sem ég lýsti yfir miklum efasemdum um að flytja fjarskiptamál úr umhverfis- og samgönguráðuneytinu sem nú mun heita innviðaráðuneyti yfir í nýtt ráðuneyti vísinda, iðnaðar og nýsköpunar. — Sko til, ég er að læra þetta nafn a.m.k. (Gripið fram í: Gengur svo ljómandi vel.) Ég þarf ekki nema tíu daga í viðbót, þá er þetta komið. Ég minni hæstv. forseta á að það væri skynsamlegt að bæta hér miða í pontu þar sem nöfn nýju ráðuneytanna kæmu fram.

Þetta er það sem ég vildi bara minna á, að skoðað verði í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hvort það sé raunverulega skynsamlegt að klára þetta mál með þeim hætti að fjarskiptamálin færist. Ég myndi leggja það til að þau verði áfram í gamla samgönguráðuneytinu og nýju innviðaráðuneyti og er maður þá búinn að taka þá sem sitja í hverjum stól fyrir sig út úr myndinni. Ég held að þetta sé skynsamlegt upp á fyrirkomulag verka að gera.