152. löggjafarþing — 12. fundur,  16. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[15:52]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að það sé mjög mikilvægt að hafa festu í skipulagi Stjórnarráðsins. Ef við horfum á Stjórnarráðið er hvert ráðuneyti raunverulega bara skrifstofa ráðherra. Allt er gert fyrir hönd ráðherra — f.h.r. stendur í öllum bréfum. Og skrifstofu í ráðuneyti er skipt í undirskrifstofur, það er grunneiningin. Ég vil taka fram að ég er mjög hlynntur því að ríkisstjórnir á hverjum tíma skipuleggi sitt ráðuneyti eins og þær vilja gera en þá á að gera það með því að raða skrifstofunum, grunneiningum Stjórnarráðsins, ráðuneytanna, undir ráðherrann en ekki að plokka einstök málefni út úr skrifstofunum og skipta þeim upp. Það er ekki málið. Það á að taka skrifstofurnar og færa þær undir ákveðna ráðherra. Þannig á að gera það, þannig skapast festan. Vinnustaður hvers starfsmanns Stjórnarráðs er skrifstofa í ráðuneytinu, undirskrifstofa — en ekki fara að flytja starfsmenn fram og til baka í Stjórnarráðinu eftir málefnum. Það væri gaman að heyra álit hv. þingmanns á þessu.