152. löggjafarþing — 12. fundur,  16. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[16:14]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Við erum að fjalla um tillögu til þingsályktunar um breytingar á ráðuneytum í Stjórnarráði Íslands og komið er með ný ráðuneyti, eins og segir orðrétt, með leyfi forseta:

„… félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, innviðaráðuneyti, matvælaráðuneyti, menningar- og viðskiptaráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.“

Miðað við umræður sem hafa farið fram um þessa þingsályktunartillögu hringja margar viðvörunarbjöllur og sérstaklega sú viðvörunarbjalla að við skulum vera að fjalla um þingsályktunartillögu sem stangast jafnvel á við lög. Ef bara minnsti vafi er á því þá er grafalvarlegt að við skulum vera með þessa tillögu til umræðu.

Það sem kom fram áðan er þó kannski það góða við tillöguna, að Ráðgjafar- og greiningarmiðstöðin, sem gegnir afar mikilvægu hlutverki, eigi að vera hjá hæstv. ráðherra Ásmundi Einari Daðasyni. Ég hef samt áhyggjur vegna þess að biðlistarnir hafa lengst og lengst, bara frá því í vor þegar ég fékk skýrslu um biðlistana vegna Covid. Þar kom fram að biðlistarnir hefðu tvöfaldast á einu ári. Ég óttast að frá því í vor hafi þeir lengst enn þá meira. Það er auðvitað grafalvarlegt mál þegar við erum með stöð þar sem verið er að greina börn til að aðstoða þau, og sérstaklega er varðar nám, að við skulum vera með kerfi sem býður upp á að börn þurfi að bíða eftir þjónustu, ekki í vikur, ekki í mánuði, ár, heldur jafnvel tvö, þrjú ár. Maður veit um þjónustu þar sem foreldrum er sagt að börnin komist jafnvel ekki að fyrr en eftir þrjú ár. Við þekkjum alveg afleiðingarnar. Við þurfum ekki að ræða þær. Ég ætla samt að ræða þær aftur vegna þess að það segir sig sjálft að ef þú segir við barn sem er sex ára að það fái greiningu eftir þrjú ár þá er það orðið níu ára. Ég segi: Hvar er skólaganga þessa barns? Við þekkjum afleiðingarnar ef börn lenda í þeirri aðstöðu að eiga það á hættu að verða fyrir einelti og vera útskúfuð úr samfélaginu. Þess vegna er óskiljanlegt að við skulum vera með fleiri hundruð börn á biðlista eftir svona sjálfsagðri þjónustu. Það er eitthvað vitlaust gefið. Það er eitthvað að kerfi sem býður upp á það.

Á sama tíma og sagt er að það vanti jafnvel fjármuni inn í kerfið til þess að taka á þessu erum við með frumvarp sem virðist vera eitthvert gælufrumvarp um að bæta við einum ráðherra og óútfylltur víxill hvað það kostar. Það er sagt hundruð milljóna, hálfur milljarður, en gæti það farið í milljarð? Ég held að enginn viti það því að enginn getur svarað því hvað þetta á eftir að kosta okkur og þá líka hvað þetta á eftir að kosta þegar á að fara að búa til öll þessi ráðuneyti og færa til fólk og koma öllu af stað þannig að það virki virkilega. Og setjum þessi hundruð milljóna sem á að leggja í þetta í samhengi við að á sama tíma höfum við verið berjast með kjafti og klóm fyrir 50.000 kr. eingreiðslu, skatta- og skerðingarlausri, fyrir þá sem verst hafa það. Þá er bara sagt: Það eru ekki til peningar fyrir því. En það er til óútfylltur víxill fyrir þessu. Það er ekkert mál að finna peninga fyrir því.

Eins og ég hef líka bent á er ekkert mál að finna nokkur hundruð milljónir fyrir einkarekna fjölmiðla á ríkisstyrk. Stórfurðulegt mál. Og síðan stóri fíllinn, RÚV, þeir fá bara hundruð milljóna, 400 milljónir. Ekkert mál, nóg til. Þeir fá meira að segja umfram verðtryggingu. En öryrkjar? Þeir fá hana eftir á. Þegar búið er að gefa þeim 3,6% fá þeir 0,8 prósent til að dekka hana eftir á. Og 1%, gleymum því ekki, sem er jafn mikið og þetta og minna en það sem á að fara í fjölmiðla, ríkisrekna og einkarekna. Hvar ætlum við að hætta? Af hverju styrkjum við ekki bara einkareknar sjoppur? Hver er munurinn á því? Það heitir einkarekið vegna þess að það á að vera einkarekið en ekki ríkisstyrkt.

Maður getur stundum furðað sig á því hvernig hlutirnir æxlast. Þorsteinn Pálsson skrifaði grein sem heitir, með leyfi forseta, „Hangikjöt og háskólar“. Þar er hann að stórfurða sig á þessum ráðuneytum og spyr þeirrar einföldu spurningar hvernig í ósköpunum málefni þeirra sem reykja kjöt sé komið inn í málefni háskóla og vísindarannsókna. Ég veit það ekki. Mér datt í hug að hugsunin þarna á bak við væri kannski að rannsaka hangikjötið vísindalega til að átta sig á því hversu óhollt það er. Ég spyr mig líka sömu spurningar og hann: Hvernig í ósköpunum á þetta að fara saman? Að háskólar tengist fyrirtækjum sem reykja kjöt er auðvitað alveg stórfurðulegt. Eins og hann bendir líka á fer nám í læknisfræði í ráðuneyti iðnaðarmála en nám í kjötiðn á ekki heima þar. Maður spyr sig: Hvernig stendur á þessu? Er þetta rétt? Og ef þetta er rétt þá er það grafalvarlegt mál

Með leyfi forseta ætla ég að vitna í grein Þorsteins þar sem hann segir:

„Langsamlega mesta „Alvörukerfisbreytingin“ er fjölgun ráðuneyta um 20 prósent og fjölgun ráðherra um 10 prósent. Það er stærsta hugsjónamálið, sem leitt var til lykta.

Í beinu framhaldi var rúmum á geðdeild Landspítala fækkað um 10 prósent. Forgangsröðunin fer ekki einu sinni leynt.

Íslenskt ríkisbákn þarf nú tólf ráðherra, en það þýska sextán.“

Hvað erum við mörg? Við náum ekki 400.000. Hvað eru Þjóðverjar margir? Ef þeir þurfa 16 ráðherra þá þurfum við varla næstum því jafn marga ráðherra og jólasveinarnir eru. Ég held að það sé alveg á hreinu að það ætti ekki að vera.

Ég sé að það gengur vel á tímann. Ég spyr mig eins og ég gerði í upphafi: Ef þessi þingsályktunartillaga er svona meingölluð, er ekki tími til að draga hana til baka og koma hreinlega með nýja? Við getum auðvitað rifið þetta, ekki af óvirðingu heldur bara af heilbrigðri skynsemi, og komið með nýja þingsályktunartillögu sem væri skiljanleg, enginn vafi væri á að stæðist lög og við værum með nákvæmlega kostnaðargreinda, sem ætti að vera skylda og ég skil ekki hvernig er ekki hægt að gera, þannig að það færi ekki á milli mála upp á krónu hvað þetta kostar. Það væri sko heilbrigð skynsemi.