152. löggjafarþing — 12. fundur,  16. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[16:34]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Hér stöndum við og kvörtum yfir lélegum vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar við endurskipulagningu Stjórnarráðsins. Þegar kemur að því að tryggja eigin völd, tekjur og stólaskipan er ríkisstjórnin tilbúin að skrifa óútfylltan tékka fyrir kostnaði. Á sama tíma lætur ríkisstjórnin öryrkja lepja dauðann úr skel og sjúklinga hírast á göngunum og geymslurýmum. Þegar kemur að því að tryggja að Ísland sé velsældarsamfélag, hugtak sem ríkisstjórnin sjálf ákvað að nota í stjórnarsáttmála sínum, virðist sú velsæld frekar vera fyrir hæstv. ráðherra og valdatafl þeirra. Sá kostnaður sem nefndur hefur verið í tengslum við þessar breytingar hleypur á hundruðum milljóna og jafnvel milljarði. Það er nálægt því sá peningur sem stjórnarandstaðan hefur lagt til að veittur verði sem skerðingarlaus jólagreiðsla til öryrkja, aðgerð sem hæstv. fjármálaráðherra segir að sé á borði hæstv. félagsmálaráðherra sem síðan bendir á þingið þrátt fyrir að þingið sé að biðja ráðherra um svör. Nú erum við að ræða mál sem snertir hæstv. forsætisráðherra sem hefur sýnt þinginu þá virðingu að sitja hér undir umræðum um tillögu hennar. Sem yfirmaður þeirra tveggja hæstv. ráðherra sem benda hvor á annan þá langar mig að skora á hæstv. forsætisráðherra að koma í andsvar og segja hvort forsætisráðherra ætli að sýna mannúð í verki og tryggja öryrkjum þessa greiðslu þrátt fyrir það að við í stjórnarandstöðunni höfum lagt fram þá tillögu.

En hver er raunveruleg ástæða þess að við erum að fjalla um endurskipulagningu Stjórnarráðsins? Við sem erum nógu gömul munum eftir hinum bráðskemmtilegu bresku gamanþáttum Já, ráðherra og Já, forsætisráðherra og það er spurning hvort sú hefð að embættismenn innan kerfisins stýrðu ráðherrum hafi kannski fengið að tíðkast á Íslandi allt of lengi. Við veltum því fyrir okkur. Við heyrum líka talað um skilvirkni og að vinna þvert á ráðuneyti en það er ekkert í greinargerð með þingsályktunartillögunni sem sýnir að verið sé að vinna þvert á ráðuneyti nema þegar kemur að hlutum eins og jafnréttismálum og mannréttindamálum sem eru að falla undir hæstv. forsætisráðherra.

Svo getum við horft á það hvernig þetta er framkvæmt. Jú, það var byrjað á því að ákveða að það yrðu þetta margir ráðherrar og svo var farið í að búa til einhverja samansuðu af verkefnum sem hver þessara ráðherrastóla gæti fengið undir sig. Þarna er brotin ein grundvallarregla í því að framkvæma endurskipulagningu sem virkar, sú að það sé byrjað á að skoða þau markmið og strategíu sem ætlast er til að ná fram og hanna síðan endurskipulagninguna í kringum það. Nei, það mátti ekki, heldur var farið í að finna strategíuskýringar sem hægt væri að púsla við það af hverju hver og einn valdastóll varð til. Sú endurskipulagning sem hér liggur fyrir brýtur líka aðra grundvallarreglu góðrar endurskipulagningar. Hún er sú að virkja þá sem hún hefur áhrif á. Til að ná fram góðri endurskipulagningu er nefnilega árangursríkast að fá sjónarmið þeirra sem eru næstir þessu, ekki sjónarmið einhverra stjórnarflokkaformanna sem eru í raun og veru alls ekki tengdir inn í þau ráðuneyti sem þeir eru að stokka upp heldur þekkja þau bara af afspurn sinna kollega. Já, það er nefnilega best að fá fólk með sér frá upphafi endurskipulagningarinnar, að það komi með hugmyndir, það gefi viðbrögð við þeim breytingum sem verið er að horfa á og það viti hvert hlutirnir stefni. En hið sjálfskipaða endurskipulagningarþríeyki hélt spilunum að sér svo lengi að meira að segja kollegar þeirra sem urðu ráðherrar vissu ekki einu sinni hvað þeir voru að fara að gera og eru jafnvel enn að klóra sér í hausnum yfir því hvað þeir eigi að vera að gera.

Ég reikna ekki með að hæstv. forsætisráðherra hlusti mikið á þær athugasemdir og hugmyndir sem við í stjórnarandstöðunni höfum rætt hér. En það er von mín að þegar næst verður farið í endurskipulagningu sem, miðað við orð hæstv. fjármálaráðherra sem er orðinn leiður á fjárlagagerð, gæti orðið eftir um tvö ár, þá dragi þau kannski smá lærdóm af þessari endurskipulagningu og bæti vinnubrögðin.

Já, við eigum eflaust eftir að súpa seyðið af þessari illa hugsuðu kerfisbreytingu, breytingu sem er svo illa hugsuð að sum ráðuneytin heita nokkrum mismunandi nöfnum í þingsályktunartillögunni, breytingu sem mun kosta meira en sú eingreiðsla sem öryrkjar eiga skilið, breytingu sem mun kosta meira en sú upphæð sem hefði dugað til að stytta biðlista fyrir geðheilbrigðisþjónustu og breytingu sem einungis tryggir áframhaldandi samstarf valdagráðugra stjórnmálamanna sem eru tilbúnir að fórna öllu fyrir stólana sína.