152. löggjafarþing — 12. fundur,  16. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[16:40]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér með tilkynnist að stjórnarliði er kominn í pontu. Það er ekki endilega þannig að ég sé skoðanalaus í þessum málum eða hafi ekki svör því að í þessu máli taldi ég nægilegt að forsætisráðherrann sjálfur, sem vann málið ásamt samráðherrum sínum þremur og formönnum, væri best til þess fallinn og það er vel. Ég er búin að fara yfir þetta og hef hlustað hér á ýmsar ræður hjá minni hlutanum, sem er bara fínt. Þetta eru nokkrar breytingar og þær koma okkur öllum við og ég held að það sé bara ágætt að við séum að fjalla um þetta fram og til baka þangað til við fáum málið inn í nefnd og fáum ýmis viðbrögð, bæði frá umsagnaraðilum og eins að við getum fjallað um þetta sjálf. Ég hef farið yfir þetta aftur og aftur og það er náttúrlega þannig með okkur stjórnarliða að við erum svona fyrir utan ráðherrastólana, fyrir utan Stjórnarráðið og sitjum hér á þingi, og við fengum málið í hendur núna bara fyrir nokkrum dögum og erum þess vegna ekki með öll svörin. En mér sýnist, þegar ég fer yfir tillöguna, að hún sé ekki eins svakalegt og sumir telja. Það er ekki verið að flytja nein fjöll eða annað slíkt heldur eru þetta bara breytingar sem kannski hefur verið orðin þörf fyrir. Við höfum ekki breytt Stjórnarráðinu eða ráðuneytunum í tíu ár og við verðum að gera okkur grein fyrir því að það hvernig ráðuneyti eru skipuð er ekki meitlað í stein. Það hlýtur að þurfa að taka mið af því hvernig þjóðin er samansett, hvernig landið liggur og við verðum að viðurkenna það að síðustu tvö ár hefur margt breyst. Það hefur eiginlega allt breyst, ekki bara hér heldur í öllum heiminum. Af hverju eigum við ekki að skoða málin upp á nýtt? Það er eins og þetta sé eitthvað sem sé verið að gera í fyrsta skipti hér í marga áratugi eða bara í fyrsta skipti, en það er alls ekki. Þetta er gert eftir nærri hverjar kosningar í Danmörku og í löndunum í kringum okkur, þannig að ég held að það sé alveg ástæðulaust að fara á límingunum yfir þessu.

Þegar maður fer yfir tillöguna eru hérna alla vega fimm ráðuneyti sem breytast ekki, sem eru utanríkisráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið, fjármálaráðuneytið, dómsmálaráðuneytið og forsætisráðuneytið þó að einhverjir málaflokkar flytjist á milli. Í stjórnarsáttmálanum er megináherslan t.d. lögð á loftslagsbreytingar, við þurfum að koma til móts við það, orkuskiptin, grænar fjárfestingar. Og þegar ég les stjórnarsáttmálann og fer svo aftur yfir þessa þingsályktunartillögu sýnist mér að hún sé alveg í fullu samræmi við hann.

Einhverjum hefur orðið tíðrætt um kostnaðinn. Jú, þetta er dýrt og má alltaf segja að það þurfi að réttlæta. Við erum að bæta við einum ráðherra og ráðuneytum fjölgar um tvö. Hæstv. forsætisráðherra svaraði því til hér í gær að þetta myndi kosta um 450 milljónir. Einhverjum hefur líka orðið tíðrætt um að þetta sé óþægilegt fyrir þá starfsmenn sem sitja í ráðuneytunum, að þeir viti ekki hvert þeir eiga að mæta daginn eftir og annað slíkt. Það má alveg taka undir það að vissu leyti. En þegar þú ert starfsmaður í ráðuneyti má alltaf búast við nokkrum breytingum, t.d. við hverjar kosningar. Er það alveg sjálfsagt að þó að sama ríkisstjórn sitji í tvö kjörtímabil verði allt eins? Getum við ekki líka gagnrýnt það að ráðherrar festist enn frekar og sökkvi í stólana sem þeir sitja í? Og við getum alveg sagt um það skipulag sem var á fyrra kjörtímabili að manni fannst nokkur málefni skarast og það væri ekki nógu mikið samtal milli ráðuneyta. Þetta á að bæta.

Mig langar til að nefna hérna nokkur ráðuneyti og það er ýmislegt hérna, ég get alveg viðurkennt það, sem maður klórar sér í hausnum yfir og ég get hvorki svarað fyrir né andmælt eða mælt með, en heilt yfir sýnist mér þetta vera mjög í anda þess sem stjórnarsáttmálinn segir til um. Ég nefni t.d. matvælaráðuneytið. Ég er mjög ánægð með þá breytingu, að verið sé að leggja áherslu á þann málaflokk. Við erum jú matvælaþjóð og til þess að við getum nýtt okkar auðlindir sem best til að framleiða matvæli þurfum við að einblína á þessa þætti. Á liðnu kjörtímabili settum við okkur matvælastefnu og gildir hún til ársins 2030 og í henni er fjallað um bæði áskoranir og tækifæri íslenskrar matvælaframleiðslu til næstu tíu ára. Það sem er flutt inn í þetta ráðuneyti er skógræktin og landgræðslan. Þetta tengist landbúnaði. Maður skildi aldrei af hverju þetta var annars staðar en þar. Almenn landnýting á auðvitað að vera undir þessu ráðuneyti. Að öðru leyti er það ráðuneyti ekki mikið að breytast.

Síðan er mennta- og barnamálaráðuneytið. Á liðnu kjörtímabili var ráðist í mjög umfangsmiklar breytingar á lagaumhverfi er varðar málefni barna með farsæld þeirra að leiðarljósi. Eðlilega kemur því þessi breyting á ráðuneytinu til. Mér finnst það bara mjög eðlilegt. Ef við ætlum að koma þessari framkvæmd fyrir og fullvinna verðum við að aðlaga okkur að því. Við getum ekki farið fram á framfarir nema þetta fylgi með. Við ætlum að bæta þjónustu við börn með því að afnema kerfislægar hindranir og búa málaflokknum heildstæða umgjörð. Þarna er verið að ná utan um þennan málaflokk með þeim breytingum sem við gerðum á síðasta kjörtímabili.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti: Samhengi orku- og loftslagsmála er augljóst og þó að það heiti eitthvað annað þarf það ekkert að bragðast öðruvísi. Ég held að það sé kannski orðum aukið að það sé verið, eins og hv. þm. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir sagði hér áðan, að taka púsluspil og henda því upp í loftið og raða því svo aftur. Það er nú svolítið orðum aukið en vissulega birtist ný mynd. En ef við ætlum gera eitthvað gagnvart loftslagsbreytingum og taka virkilega þátt í því verkefni sem þjóð verðum við að einbeita okkur að þeim lausnum sem við höfum til þess. Þess vegna verðum við horfa á þetta samhengi, orkuna og þær auðlindir sem við höfum, umhverfismál og loftslagsmál — það heyrir allt undir þetta.

Það var eitt sem ég ætlaði líka að nefna. Hér segir um innviðaráðuneytið: „Með breytingunni er stefnt að því að tryggja betri samhæfingu með sveitarfélögum, aukinn stöðugleika á húsnæðismarkaði og að áætlanir í samgöngumálum, húsnæðismálum og skipulagsmálum verði samþættar og lagðar fram samhliða þannig að tryggja megi að samgöngur séu í þágu byggðar og loftslags.“ Við töluðum mikið um innviðauppbyggingu og að við þyrftum að treysta þá innviði sem við hefðum í landinu. Hér er bara verið að byggja traustari stoðir undir þann málaflokk.

Heilt yfir eru þessar breytingar, finnst mér, eins og ég sagði áðan, í takt við stjórnarsáttmálann sem ný ríkisstjórn vinnur eftir og ég get með heilum hug stutt þessa þingsályktunartillögu. Ég hef lokið máli mínu.