152. löggjafarþing — 12. fundur,  16. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[16:53]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Eins og ég skildi það þá var þingmaðurinn að tala um að skammur tími hafi farið í undirbúning á þessum breytingum. Þeir þingflokkar sem starfa saman í ríkisstjórn eru búnir að starfa saman í fjögur ár og ég held að sá tími hafi verið reynslutími fyrir þessar breytingar, sem þurfti ekki að gera á síðasta kjörtímabili. Þetta hafi verið reynslutími sem þeir byggðu þessa framkvæmd á. Þessar tillögur hljóta að hafa komið upp í gegnum þessi fjögur ár, að það þyrfti að breyta þessu svona til þess að gera þetta skilvirkara. Það er sú tilfinning sem ég fæ, þó að þetta hafi ekki alltaf verið rætt einhvers staðar „grundigt“ en það gerist þegar þau setjast niður aftur. Eins og hv. þingmaður sagði hér í fyrri ræðu, þau voru búin að vinna þetta lengi saman og hann líkti þessu við hjónaband. Það er alveg rétt. Ef maður ætlar að halda áfram í einhverju sambandi, hvort sem er í hjónabandi eða samstarfi milli einstaklinga sem vinna saman, þá þarf maður að setjast niður öðru hvoru og spyrja: Er rétt að halda áfram á sömu forsendum og gert var? Er kannski betra að byrja jafnvel upp á nýtt eða taka til í efri skápunum eða halda áfram með eitthvað? Ég held að þessi ákvörðun hafi verið byggð á reynslu þessara fjögurra ára og ég treysti því að þetta sé okkur til heilla.