152. löggjafarþing — 12. fundur,  16. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[16:55]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka andsvarið. Mig langar að beina athyglinni að því að eina fagráðuneytið sem ekki er stokkað upp og ekki virðast vera gerðar neinar breytingarkröfur til er ráðuneyti heilbrigðismála. Það gustaði heldur betur um þau mál á síðasta kjörtímabili og það heldur áfram að gusta um þau vegna þess að það sem fram kemur í áliti fjármálaráðs við fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar er t.d. gagnrýni á að ekki hafi verið brugðist við því risaverkefni sem fram undan er og tengist öldrun þjóðarinnar. Þarna hefði e.t.v. mátt, í allri þessari uppstokkun, huga að kröfum nútímans og líka að kröfum framtíðarinnar. Ég spyr hv. þingmann: Eru þetta að mati stjórnarliða nægileg viðbrögð við þeirri áskorun sem við stöndum frammi fyrir í heilbrigðismálum og því ástandi sem við búum við í heilbrigðiskerfinu okkar? Er það nægilegt í ljósi allra þeirra breytinga sem við erum að fara í í öllu stjórnkerfinu að öðru leyti að skipta bara um ráðherra?