152. löggjafarþing — 12. fundur,  16. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[16:58]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og að koma hér til þessarar umræðu. Það er virðingarvert. Mig langar að byrja á mjög afmörkuðu atriði sem ég hef nefnt í báðum ræðum mínum í málinu og snýr að flutningi fjarskiptamála úr samgönguráðuneyti, sem sagt nýju innviðaráðuneyti, yfir til — nú þarf maður að hugsa — vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis. (Gripið fram í.)Var þetta samt ekki rétt? [Hlátur í þingsal.] Það kemur. Þetta kemur einn daginn.

Mig langar í ljósi þess að hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir kemur að vestan, þar sem fjarskiptamálin hafa á löngum köflum verið með hvað broguðustum hætti af landshlutum Íslands, að spyrja hvort hv. þingmaður telji að þetta sé til bóta. Nú eru rökin fyrir því að flytja fjarskiptamál yfir til þessa nýja ráðuneytis þau að þau þurfi tengja með svo miklum hætti nýsköpun og ýmsum framtíðarvangaveltum. Mér þykja fjarskiptamálin þvert á móti vera augljós partur af grunninnviðum þjóðarinnar sem ættu miklu betur heima í nýju iðnaðarráðuneyti.

En spurningin til hv. þingmanns er: Telur þingmaðurinn þetta tiltekna atriði vel ígrundað? Eða telur þingmaðurinn jafnvel að skynsamlegt væri að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, sem um málið mun fjalla, ætti að gera tillögu um að koma þessum málaflokki áfram fyrir í innviðaráðuneytinu hjá formanni þess flokks sem hún er þingmaður fyrir?