152. löggjafarþing — 12. fundur,  16. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[17:01]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka svarið. Auðvitað er engin gagnrýni á störf hæstv. ráðherra, Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, fólgin í þessum orðum mínum, síður en svo. En það kemur fram í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Eins og sjá má eru þessar breytingar á skipan ráðuneyta síðast en ekki síst til þess fallnar að fella ósýnilega múra stofnanamenningar og stuðla að samvinnu, samráði og samhæfingu innan Stjórnarráðsins.“

Í því samhengi langar mig að spyrja hv. þingmann: Hefur það verið upplifun stjórnarliða á liðnu kjörtímabili að samstarf ráðuneyta sé svo lélegt að það þurfi beinlínis að fara í uppstokkun á ráðuneytum til að fella ósýnilega múra stofnanamenningar og stuðla að samvinnu, samráði og samhæfingu innan Stjórnarráðsins? Þá hlýtur maður að spyrja: Af hverju var það ekki gert á fyrri hluta síðasta kjörtímabils? Slíkt ástand sem hér er lýst ætti ekki að hafa dulist neinum sem var almennur þingmaður í liði stjórnarflokkanna.