152. löggjafarþing — 12. fundur,  16. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[17:06]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég er ánægð með það að hún spyrji um matvælaráðuneytið því að ég er sérstaklega ánægð með þá áherslu. Það hefur skort svo virkilega að við horfum á okkur sem matvælaframleiðsluþjóð og við þurfum að byggja undir það. Um leið og við gerum það þá erum við að vekja athygli á því að þetta er framlag okkar sem matvælaþjóðar, þ.e. að við erum ná loftslagsmarkmiðum. Með því getum við náð árangri í þeim málefnum. Það er alveg sérstaklega ánægjulegt að við séum að horfa til þess að vinna eftir matvælastefnunni. Ég held að það sé bara til bóta, og líka að flytja verkefni í skógrækt og landgræðslu þarna inn og að við horfum á þetta sem heildargrunn.

Í sambandi við umboðsmann barna þá hef ég ekki rök á takteinum fyrir því af hverju verið er að flytja þau mál á milli ráðuneyta. Eins og hv. þingmaður kom inn á þá er kannski óheppilegt að hann fari þarna undir. Þetta er eitt af því sem ég mun spyrja um þegar við förum í þinglega meðferð um þessi mál. En ég hef ekki rökin á takteinum, ég skal bara viðurkenna það.