152. löggjafarþing — 12. fundur,  16. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[17:08]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er skiljanlegt að hafa ekki rökin á hreinu því að það hefur engin greining átt sér stað og engin stefnumótun. Bara í síðustu viku var einn ráðherra sem sagði við mig: Já, ég fékk fréttir á miðvikudaginn að ég væri með þetta tiltekna mál innan ráðuneytis. Það er enginn með yfirsýn. Það er heldur engin tilviljun að það eru bara formennirnir sem eru á sínum stað. Allt annað er stokkað upp.

Ég undirstrika það að ég sé jákvæðar breytingar í umhverfis- og loftslagsráðuneyti. Ég bind vonir við það að við sjáum einhverja hreyfingu í flutningskerfinu. Og þá er ég komin að spurningu til hv. þingmanns, og að við sjáum fram á að byrjað verði að nýta okkar grænu orku, fara í virkjanir á grundvelli rammaáætlunar, á grundvelli þess sem fyrir liggur, til þess að við getum farið af stað í orkuskiptin. Telur hv. þingmaður að það verði gert eitthvað á þessu kjörtímabili eða verðum við áfram í því svartholi sem við vorum á síðasta kjörtímabili þar sem ekkert hreyfðist í þessum málum? Hv. þingmaður er landsbyggðarþingmaður og veit það vel að flutningskerfið til að mynda er búið að vera í lamasessi núna árum saman, einmitt á meðan Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur hafa borið ábyrgð á þeim málaflokki.