152. löggjafarþing — 12. fundur,  16. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[17:09]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er akkúrat þessi punktur sem ég ætlaði að koma inn á í ræðu minni fyrst. Ég bind vonir við að það gerist nú loksins eitthvað í sambandi við flutningskerfi á landi vegna þess að nú eru skipulagsmálin komin undir innviðaráðuneytið. Það er sá slagkraftur sem þarf að vinna í. Það eru skipulagsmálin í þessu sambandi, þar hefur hann kannski vantað. Ég held að þetta hafi nákvæmlega verið hugsunin á bak við það að flytja skipulagsmálin inn í innviðaráðuneytið, til þess að við fáum heildræna sýn og getum gert eitthvað róttækt í þeim málum og koma raforkunni með tryggum hætti um landið. Og síðan eru náttúrlega þau landsvæði þar sem vantar hreinlega upp á raforku, við þurfum náttúrlega líka að horfa til þess að virkja á þeim landsvæðum til að auka fram framboð raforku. Það vantar ekki upp á flutninginn.