152. löggjafarþing — 12. fundur,  16. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[17:23]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég hef raunar, af því hann talar hér um að ég hafi ekki tekið áskorun, tileinkað mér það á undanförnum 14 árum að láta ekki aðra segja mér fyrir verkum, hvenær ég tala né hvað ég segi, og ætla að halda þeim hætti. En af því að hv. þingmaður spyr þá þekki ég að sjálfsögðu tillöguna sem um ræðir, hef beitt mér fyrir bættum kjörum öryrkja á síðasta kjörtímabili og mun halda því áfram. Og eins og fram hefur komið í fyrri svörum mínum hér í óundirbúnum fyrirspurnum þá tel ég mjög mikilvægt að fjárlaganefnd taki þessa tillögu til skoðunar og horfi á hana út frá kjörum þessa hóps sem við vitum að stendur höllum fæti í samfélaginu.