152. löggjafarþing — 12. fundur,  16. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[17:26]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir innkomuna. Ég er með nokkrar spurningar. Í fyrsta lagi hefur fræðafólk, og ýmsir sem þekkja vel til, bent á og verið nokkuð gagnrýnið á að auka þurfi gegnsæi og þau sjá ekki alveg tilganginn með öllum breytingum. Vel að merkja, það er margt þarna sem er jákvætt, það er ekki málið, en ég er að tala um ábendingar fólks, m.a. úr fræða- og menntasamfélaginu, sem segir t.d. að ekki sé verið að fara eftir leiðsögn rannsóknarskýrslu Alþingis. Fyrsta spurningin: Telur ráðherra að þessar breytingar séu í samræmi við þær ábendingar að ráðuneytin á sínum tíma hafi ekki verið nægilega sterk, hafi ekki verið nægilega öflug? Er þetta í „sinki“ við það?

Í öðru lagi segir ráðherra að þingnefndin eigi að fara vel yfir þetta og hún mun eflaust gera það. Þýðir þetta að ráðherra sjái hugsanlega fram á einhverja breytingu á málinu í ferli þingsins? Og þá vonandi varðandi umboðsmann barna en ég heyri að margir eru líka að velta vöngum yfir fjarskiptunum. Sér ráðherra fram á að þetta mál breytist eitthvað í meðförum þingsins?

Í þriðja lagi, og það tengist kannski því sem stendur í stjórnarsáttmálanum, og mér finnst skipta máli hvernig Stjórnarráðið kemur inn í breytingarnar, er það atriðið varðandi lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það er verið að tala um stofnun mannréttindastofnunar. Það er útfærsluatriði hvernig það verður, hvort það verður umboðsmaður Alþingis eða hvernig við gerum það. Meginatriðið er að þetta verði gert. Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf staðið gegn þessu, dómsmálaráðuneytið undir þeirra forystu, og ég margspurði þáverandi ráðherra og það var bara þvert nei. Verða þessar breytingar til þess að við sjáum fram á að það mikilvæga mál komist í gegn? Er kannski verið að færa mannréttindamálin yfir til forsætisráðuneytis til að einhver hreyfing verði á þeim málum?