152. löggjafarþing — 12. fundur,  16. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[17:30]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Takk fyrir þetta, hæstv. forsætisráðherra. Gott verður að fá að vita um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna á eftir. Það skiptir gríðarlega miklu máli að fá skýr svör þar. Mér finnst mjög skringilegur þessi mikli kostnaður, mörg hundruð milljónir. Mér finnst enginn bragur á því að þetta séu fyrstu skrefin, að fjölga ríkisstarfsmönnum og fara út í mörg hundruð milljóna króna útlát á þessum tímum. En það er önnur saga og við erum bara ósammála um það.

Mig langar til að draga fram að það eru þarna nokkrar breytingar sem ég tel vera skynsamlegar og geta aukið skilvirkni í kerfinu, m.a. að skipulagsmálin eru að færast yfir til innviðaráðuneytisins og líka hitt, umhverfis- og auðlindaráðuneytið er orðið skýrara. Sér hæstv. forsætisráðherra fram á að farið verði í það, þá á grunni þess að kominn er annar ráðherra og stjórnsýslan er að breytast, að virkja á grunni rammaáætlunar, virkja á þessu kjörtímabili í þágu grænnar orku, í þágu hringrásarhagkerfisins, í þágu umhverfis- og loftslagssjónarmiða, í þágu orkuskipta? Sér hæstv. ráðherra fram á að farið verði í slíkar virkjanir og undirbúning strax núna á fyrstu stigum og fyrstu misserum þessarar ríkisstjórnar og styðja þessar breytingar það risastóra verkefni sem við þurfum að fara í fyrr en síðar?