152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[18:27]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf):

Frú forseti. Ágæti þingheimur. Sá sem hér stendur, sem sagt ég, getur staðfest að starfsemin á Vogi virkar. Ég varð þess aðnjótandi fyrir 40 árum að fara í meðferð á vegum Vogs, sem bjargaði lífi mínu. Tveimur árum seinna var ég næstum því búinn að missa tökin og þurfti að fara aftur í meðferð. Á þeim tíma taldi ég mig ekki geta farið í meðferð annað en til útlanda þannig að ég fór á mjög fína meðferðarstofnun, Edgehill heitir hún. Síðan hef ég í þrjár vikur dvalið á Hazelden, sem er Mekka meðferðarstofnana í heiminum. Eftir að hafa séð þessar erlendu meðferðarstofnanir get ég staðfest að Vogur er fyrsta flokks meðferðarstofnun og það er brýn nauðsyn að leggja fram alla þá peninga sem þeir þurfa til að takast á við vandamálið, því að ég þekki vandamálið af eigin raun — og ég þekki vandamálið líka vegna þess að ég umgengst fólk sem þarf á aðstoðinni að halda.