152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[18:49]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ár eftir ár hefur ríkisstjórnin virt að vettugi fyrirmæli 69. gr. laga um almannatryggingar. Fjárlagafrumvarp þetta er engin undantekning. Lögin setja það skilyrði að lífeyrir almannatrygginga skuli fylgja launaþróun. Launaþróunin liggur fyrir. Launavísitalan hefur hækkað um 7,5% á ársgrundvelli, en í stað þess að leggja launavísitölu vísitölu til grundvallar er í fjárlagafrumvarpinu miðað við meðaltaxtahækkanir og lögð til 3,8% hækkun lífeyris milli ára. Til viðbótar hefur fjármálaráðherra bætt við 0,8% verðlagshækkun vegna þess að uppfærsla síðustu fjárlaga hélt ekki í við verðbólgu. Samanlagt er þetta því 4,6% hækkun á lífeyri almannatrygginga. Lífeyrisþegar geta ekki farið í verkfall til að krefjast leiðréttingar. Þeirra hagsmunir fá yfirleitt ekki forgang hjá ríkisstjórninni. Alþingi Íslendinga ber að standa vörð um hagsmuni allra í samfélaginu og tryggja að lífeyrisþegum verði ekki mismunað með þessum hætti. Skýrum fyrirmælum í 69. gr. laga um almannatryggingar er ætlað að tryggja það. — Ég segi já.