152. löggjafarþing — 17. fundur,  27. des. 2021.

loftferðir.

154. mál
[16:44]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur fyrir þetta, enda er hún vel þekkt fyrir ágæta framsögu. Ég vil byrja á að fagna því að nefndin hafi tekið höndum saman um að gera verulegar lagfæringar á frumvarpinu eins og það var upphaflega lagt fram. Í sjálfu sér þarf ekki að hafa mörg orð um það að á sínum tíma, þegar upphaflegu lögin voru sett, sem nú er verið að framlengja, varð mikil umræða um stjórnarskrá og ákvæði þeirra laga og þess vegna er maður örlítið hissa á því, þegar kemur síðan áminningarbréf frá eftirlitsstofnuninni ESA, að ráðuneytið og ráðherrann hafi ekki tekið meira mark á því.

Ég vil fagna því að nefndin hafi gert endurbætur á frumvarpinu sem mér sýnist að séu allar til þess fallnar að koma til móts við þessi sjónarmið um það að í fyrsta lagi, sem var til umræðu á sínum tíma, væri ekki hægt að meina íslenskum ríkisborgurum að koma til landsins og síðan að taka mark á því sem ESA segir um mismunun. Ég er í sjálfu sér ekki með neinar spurningar til hv. þingmanns en vildi bara árétta þetta. Það er gott að þetta hefur farið svona og vonandi höfum við þá búið þannig um hnútana að við gætum bæði þeirra skyldna sem við höfum gagnvart eigin ríkisborgurum en ekki síður skuldbindinga okkar samkvæmt EES-samningnum.