152. löggjafarþing — 17. fundur,  27. des. 2021.

loftferðir.

154. mál
[16:48]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur kærlega fyrir svarið og það er gott að við erum á sömu blaðsíðu. Ég held að það sé mjög gott að við tökum mark á þessu. Þá er ég að vísa til eftirlitsstofnunarinnar. Auðvitað var það þannig að ráðuneytið var búið að fá ábendingar frá ESA um að þetta væri ekki í lagi að mati stofnunarinnar. Engu að síður ákvað ráðuneytið að fara fram með þeim hætti sem það gerði. En síðan kemur þetta formlega bréf og nefndin tekur af skarið, sem er gott og ég fagna því. Þetta er kannski almennt til umhugsunar fyrir okkur, hversu mikilvægt það er að nefndir vandi sig í vinnu sinni. Þetta er gott dæmi um það og því ber að fagna. Þetta er jafnframt oft góð ábending til meiri hluta á hverjum tíma um að gæta sín á því að vera ekki bara framlenging á því sem ráðherrar eða ráðuneyti segja. Ég vildi bara koma þessum sjónarmiðum á framfæri við þessa umræðu.