152. löggjafarþing — 19. fundur,  28. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[14:55]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur andsvarið. Hv. þingmaður tæpti á ýmsu og ég ætla að reyna að nálgast það, alla vega flest af því. Hann nefndi fæðingarstyrk námsmanna. Ég get bara tekið undir það að ég hefði gjarnan viljað sjá þess merki í fjárlagafrumvarpinu. Þeim mun mikilvægara er að við sjáum það í fjármálaáætluninni og í fjárlögunum sem við munum afgreiða undir lok næsta árs. Það fara þó auknir fjármunir í Fæðingarorlofssjóð. Það er m.a. vegna aukinnar töku feðra á fæðingarorlofi. Það er því að þakka að við breyttum fæðingarorlofslöggjöfinni fyrir þarsíðustu jól, tókum einmitt umræðu um það og nú er fæðingarorlofið orðið 12 mánuðir sem er mikil réttarbót fyrir foreldra og skiptir mjög miklu máli. Það er einstaklega ánægjulegt að sjá að það sem við ræddum þá hér í þessum sal hefur einmitt raungerst, þ.e. að feður taka í auknum mæli foreldraorlof. Eitt af því sem ég sagði í þeirri umræðu var að næsta skrefið væri líka að hækka þakið í fæðingarorlofi. Það hvetur enn frekar til þátttöku feðra vegna þess að því miður erum við enn þá í þeirri stöðu að karlmenn hafa almennt hærri laun í samfélaginu.

Hv. þingmaður kom líka inn á niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu. Ég hef verið hlynnt því og studdi það frumvarp, held ég hafi meira að segja verið flutningsmaður á því frumvarpi á sínum tíma með þeirri reglugerðarheimild sem það fól í sér til ráðherra. Ég vona að hægt verði að spila með þá fjármuni sem eru í sjúkratryggingum þannig að hægt sé að koma þeirri þjónustu á. Ég átta mig á því að það verður að setja einhvern ramma í kringum það. Það er aðeins meira en að segja það þótt við viljum öll styðja við sálfræðiþjónustuna og ég hygg að það að hafa gott aðgengi að sálfræðiþjónustu sé mjög mikið lýðheilsumál og geti sparað fé til lengri tíma litið. Þess vegna hefur m.a. verið lögð áhersla á þjónustu sálfræðinga hjá heilsugæslunni, í framhaldsskólunum og víðar og næsta skref er svo að hefja niðurgreiðslu til þeirra.